Skoðun

Áhyggjur af trúboði í skólum

Svanur Sigurbjörnsson skrifar
Þann 3. feb. skrifar Árni Gunnarsson í Fréttablaðið og lýsir áhyggjum sínum yfir því að ef tillaga mannréttindaráðs Reykjavíkur verði samþykkt fái prestar Þjóðkirkjunnar ekki að heimsækja grunnskóla og ræða þar kristin gildi við nemendur. Hann nefnir að ástæðan sé „mismunun í kynningu á trúarbrögðum“, þar sem kynningin gæti orðið flókin með 33 trúfélögum, en málið varðar ekki flækjur vegna fjölda trúfélaga heldur fyrst og fremst eðli málsins.

Markmiðið er að koma í veg fyrir mismunun með því að hafa iðkun og boðun trúarbragða og lífsskoðana utan skólanna, en viðhalda góðri fagmennsku og fræðslu sem kennararnir sjá um sjálfir. Þetta er hin hlutlausa (án merkimiða) stefna sem allt starf á vegum ríkisins á að byggja á til þess að engum finnist að á sig halli sakir lífsskoðana sinna, hvort sem þær eru byggðar á trú eður ei. Slíkt fyrirkomulag (secular society) er það sem Sameinuðu þjóðirnar styðja og innifela í mannréttindasamþykktum sínum.

Hlutlaus skóli er ekki þurrausinn gildum því að kennarar halda áfram að sýna gott fordæmi og kenna í anda þeirra góðu gilda sem hinn móralski tíðarandi þjóðarinnar heldur í heiðri hverju sinni og getið er um í lögum og Aðalnámsskrá.

Árni segir það „vera ómögulegt að koma auga á hættuna, [af] því, að prestar, ... fræði skólabörn um kristna trú“. Það er hins vegar fleira en það sem er beinlínis hættulegt sem er ekki við hæfi að fari fram í skólum. Það er t.d. ekki öllum að skapi að boðuð sé trú á upprisu eða kraftaverk, þó að ekki sé það með beinum hætti skaðlegt. Árni sagðist hafa farið „sjálfviljugur“ í KFUM og börn munu geta það áfram. Það kemur skólanum ekkert við. Árni spyr svo af hverju siðrænir húmanistar berjist ekki frekar gegn innrætingu ofbeldis í þjóðfélaginu. Það er verðugt mál, en kemur málinu ekkert við. Hið sama má segja um hvort að „Jesús Kristur hafi verið húmanisti“. Siðrænir húmanistar vilja ekki vera með boðun í skólum og því gildir einu hvort að prestar kynni til sögunnar eitthvað húmaníska persónu. Það er kennaranna að upplýsa börnin um trúarbrögð og lífsskoðanir frá sjónarhóli hins upplýsta skoðanda samkvæmt bestu hlutlægum upplýsingum sem liggja fyrir í faginu hverju sinni.

Getum við ekki verið sammála um það?

Árni og fleiri hafa sótt í að blanda þjóðsöngnum í þetta. Umræða um hann er annað mál þó að líkt og með grunnskóla ætti hann ekki að vera merktur einni lífsskoðun. Hann verður áfram sunginn í skólum og annars staðar, en hvort að lofgjörðarsöngur til guðs kristinna sé heppilegur sem þjóðsöngur fyrir alla er spurning sem vert er að skoða við annað tækifæri. Ísland er land mitt – eins og allra annarra.




Skoðun

Skoðun

Ert þú drusla?

Katrín Sigríður J. Steingrímsdóttir,Elísa Rún Svansdóttir,Lilja Íris Long Birnudóttir,Lísa Margrét Gunnarsdóttir,Margrét Baldursdóttir,Silja Höllu Egilsdóttir skrifar

Sjá meira


×