Skoðun

Á mannamáli

Jón Gunnar Björgvinsson skrifar
Oft er það svo þegar sjávarútvegsmálin ber á góma að fólk missir óðar athyglina. Hugtökin eru mörg og ruglingsleg, margt gert til þess að flækja málin og iðulega láta þeir sem hæst hafa í það skína að þessi umræða sé einungis fyrir sérfróða. En því er ekki þannig farið. Málið snýst um örfá afar einföld atriði. Hér ætla ég í örstuttu og skiljanlegu máli að gera grein fyrir muninum á þeim tveim leiðum sem helst eru ræddar um hvernig úthluta eigi veiðiheimildum.

Ekki er við því að búast að hver sem er geri sér grein fyrir hvort einhver munur sé á tilboðsleið og samningaleið og hver hann þá sé. Tilboðsleiðin gerir ráð fyrir því að 5-8% aflaheimilda séu boðin upp árlega. Til einföldunar ætla ég að ganga út frá því að 5% kvótans verði innkölluð árlega í 20 ár. Ef útgerð hefur ekki bolmagn til þess að tryggja sér heimildir eitt árið verður samdrátturinn því aldrei meiri en 5%. Þá gefst gott ráðrúm til þess að hagræða í rekstri og ná sér í heimildir annað hvort á markaði innan ársins eða þá ári síðar þegar önnur 5% verða í boði. Með þessari aðferð er tryggt að útgerðarmaður standi ekki uppi einn daginn án allra sinna heimilda. Með þessum hætti er þess gætt að verðið fyrir heimildir verði aldrei of hátt né of lágt. Það tryggir þjóðinni rétt verð fyrir auðlindina og útvegsmönnum öruggt aðgengi að heimildum, án þess að mismuna þegnum landsins. Hún tryggir jafnan rétt fyrir lögum.

Samningaleiðin er að vísu nær alveg óútfærð en gerir ráð fyrir því að núverandi handhafar kvótans fái að halda honum um ókomna tíð. Þeir fái skriflegan langtímasamning með endurnýjunarákvæði í stað úthlutunar til eins árs í senn svo sem nú er. Þá verður ríkið að semja við útgerðina um gjald fyrir heimildirnar, ekki verður möguleiki á að leigja þær öðrum sem meira vilja greiða. Útgerðin mun því sjá til þess að hún greiði ætíð lágmarksgjald fyrir aðganginn að auðlindinni.

Verði samningstíminn t.d. 15 ár er hætt við því að þegar dregur að lokum samningstímans verði rekstri fyrirtækjanna þannig háttað að lítið verði aflögu til að borga fyrir heimildirnar þegar kemur að endurnýjun samninga. Ríkið mun þurfa að semja við fámennan hóp um greiðslu á nær öllum aflaheimildum okkar í einu. Útilokað er að fá rétt verð við þær kringumstæður. Þetta býður upp á mikla hættu fyrir þjóðina og jafnframt útgerðina. Með þessari aðferð eru raunverulegar líkur á því að útgerð sem er vel sett í aflaheimildum missi þær frá sér í einu vetfangi við lok samningstímans. Þannig gæti enn eitt sjávarplássið tapað atvinnurétti sínum í einni hendingu. Með samningaleið verður jafnræðisákvæði stjórnarskrárinnar varanlega vikið til hliðar til að hygla fámennum hópi sem sölsað hefur undir sig verðmætustu auðlind þjóðarinnar.

LÍÚ og fleiri halda því fram að tilboðsleiðin reki flest öll sjávarútvegsfyrirtæki í gjaldþrot á örfáum árum. Það er merkileg staðhæfing. Tökum sem dæmi tvö fyrirtæki, eitt nýstofnað og annað sem fyrir er í greininni. Til einföldunar skulum við gera ráð fyrir að greiðsla fyrir aflaheimildir verði 20% af aflaverðmæti. Þá mun nýja fyrirtækið þurfa frá fyrsta degi að borga 20% af aflaverðmæti fyrir heimildirnar á sama tíma og sá sem fyrir er þarf fyrsta árið aðeins að greiða 20% af þeim 5% sem hann missir. Það gerir aðeins 1%. Annað árið þarf sá sem fyrir er því aðeins að greiða 2% o.s.frv. þar til að 20 árum liðnum að fyrirtækin standa jafnfætis. Þoli þeir sem fyrir eru í greininni ekki þessa leið er full ástæða að spyrja hvort aflaheimildirnar séu í réttum höndum í dag.




Skoðun

Skoðun

Ert þú drusla?

Katrín Sigríður J. Steingrímsdóttir,Elísa Rún Svansdóttir,Lilja Íris Long Birnudóttir,Lísa Margrét Gunnarsdóttir,Margrét Baldursdóttir,Silja Höllu Egilsdóttir skrifar

Sjá meira


×