Lífið

Selja föt sín í 500 verslunum um allan heim

Gunnar hefur sótt fjöldan allan af sölusýningum það sem af er árinu. 
Fréttablaðið/Arnþór
Gunnar hefur sótt fjöldan allan af sölusýningum það sem af er árinu. Fréttablaðið/Arnþór
Gunnar Hilmarsson, annar eigandi Andersen & Lauth, segir fyrirtækið hafa blásið til sóknar á erlendri grundu undanfarna mánuði. Hann hefur sótt fjölda erlendra sölusýninga það sem af er árinu og segir viðtökurnar hafa verið góðar.

Frá því í janúar hefur Andersen & Lauth tekið þátt í sölusýningum og tískuvikum í Berlín, París, Kaupmannahöfn, Stokkhólmi, Madríd, Amsterdam og London og að sögn Gunnars er stefnan tekin á tískuvikuna í Mílanó síðar í febrúar. Hann segir fyrirtækið hafa verið í hröðum vexti undanfarna mánuði og sér fram á bjarta tíma.

„Við erum búin að vera á fullu upp á síðkastið við að sýna á hinum ýmsu tískuvikum og þetta er búið að ganga mjög vel," segir Gunnar sem var staddur á tískuvikunni í London þegar blaðamaður náði af honum tali.

Hönnun Andersen & Lauth.
Að hans sögn varð minna um tækifæri innan tískubransans eftir að heimskreppan skall á en að nú sé líf farið að glæðast í hann að nýju.

„Við ákváðum að keyra svolítið á þetta núna þar sem kreppan er aðeins farin að hjaðna. Ég reikna með að nýja línan verði seld í um 500 verslunum um allan heim, allt frá Rússlandi til Saudí Arabíu og allt þar á milli. Merkið hefur dafnað vel og við erum auðvitað hrikalega ánægð með það," segir hann.

Aðspurður segir Gunnar að síðustu sölusýningunni ljúki um miðjan mars og að þá muni hann hefjast handa við að hanna næstu vorlínu.

„Sýningunum lýkur um miðjan mars og þá hefjumst við handa við að teikna vorlínu fyrir árið 2012. Við þurfum helst að klára það fyrir lok marsmánaðar þannig það er aldrei frí í þessum bransa," segir Gunnar að lokum og hlær. -sm






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.