Viðskipti innlent

Janúarútsölurnar ekki jafn líflegar

Fata- og skóverslun hefur ekki náð sér á strik eftir hrun
Fata- og skóverslun hefur ekki náð sér á strik eftir hrun Mynd: Hari
Velta dagvöruverslana í janúar jókst nokkuð frá sama mánuði í fyrra og hefur aukist að raunvirði þrjá mánuði í röð. Verð á dagvöru hefur haldist stöðugt undanfarið en hækkaði í janúar um 1,2% frá mánuðinum þar á undan. Gera má ráð fyrir frekari verðhækkunum á matvælum á næstunni vegna hækkandi heimsmarkaðsverðs.

Töluverður munur er á veltu milli mismunandi tegunda sérverslana. Þannig hefur fata- og skóverslun enn ekki náð sér á strik eftir hrun. Janúarútsölurnar í ár virðast ekki hafa verið eins líflegar og í fyrra þó verðlag sé svipað milli ára.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Rannsóknarsetri verslunarinnar.

Sala áfengis fer enn minnkandi og var í síðasta mánuði svipuð og um mitt ár 2005 að raunvirði og þegar leiðréttar hefur verið fyrir vikudaga- og árstíðabundnum þáttum. Verulega hefur dregið úr verðhækkunum á áfengi á milli ára en líklegt er að þær miklu hækkanir sem urðu 2009 hafi enn þær afleiðingar að minna er keypt af áfengi en áður auk þess sem ráðstöfunartekjur hafa minnkað.

Húsgagnaverslanir búnar að ná botninum

Ætla má að sá mikli samdráttur sem húsgagnaverslanir urðu fyrir eftir hrun hafi náð botninum. Jafnvegi hefur náðst í húsgagnasölu og dregið úr verðhækkunum með styrkingu krónunnar. Athyglisvert er að velta þeirra verslana sem sérhæfa sig í sölu á rúmum jókst í janúar um þriðjung að raunvirði milli ára. Þá varð 8,4% aukning í sölu skrifstofuhúsgagna í janúar frá sama mánuði í fyrra, en það eru líklega frekar fyrirtæki og stofnanir sem kaupa skrifstofuhúsgögn en einstaklingar.

Sala raftækja hefur farið ört vaxandi frá því um mitt árið 2010 og ekkert lát varð á vextinum í janúar samanborið við sama mánuð í fyrra. Velta raftækjaverslana var rúmum fjórðungi meiri í janúar að raunvirði en í sama mánuði í fyrra. Verð á raftækjum hefur farið lækkandi hvern mánuð frá því í ágúst síðastliðnum og var í janúar 10% lægra en í janúar í fyrra.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×