Viðskipti innlent

SA krefjast prósentustigs lækkunnar á tryggingagjaldi

Samtök atvinnulífsins (SA) krefjast þess að atvinnutryggingagjald verði lækkað um eitt prósentustig. Gjaldið sé of hátt miðað við áætlað atvinnuleysi í ár og því beri fjármálaráðherra að flytja frumvarp á Alþingi um lækkun þess. Það hafi hann ekki gert.

SA hefur sent bréf til fjármálaráðherra um málið. Það hljóðar svo í heild sinni:

„Samkvæmt 2. gr. laga um tryggingagjald skal Atvinnuleysistryggingasjóður gefa fjármálaráðherra skýrslu um fjárhagslega stöðu sjóðsins þar sem gerð sé grein fyrir fyrirsjáanlegum útgjöldum á næsta fjárhagsári með hliðsjón af horfum um atvinnuleysi og öðrum atriðum sem áhrif hafa á fjárhagslega stöðu sjóðsins. Ef niðurstaða skýrslunnar gefur tilefni til að breyta hundraðshluta atvinnutryggingagjalds skal fjármálaráðherra flytja frumvarp þar að lútandi á Alþingi.

Atvinnutryggingagjald er nú 3,81%. Á grundvelli þjóðhagsspár Hagstofunnar frá því í nóvember eru tekjur af atvinnutryggingagjaldi áætlaðar 30.594 milljónir kr. árið 2011. Atvinnuleysi er áætlað 7,3% og gjöld Atvinnuleysistryggingasjóðs 23.057 milljónum kr. Tekjur af atvinnutryggingagjaldi eru því 7.538 milljónir kr. hærri en áætluð útgjöld sjóðsins eða sem svarar til 0,94% af gjaldstofni. Atvinnutryggingagjaldið ætti því að lækka í 2,87% og tryggingagjöld í heild úr 8,65% í 7,71%.

Fjármálaráðherra hefur ekki flutt frumvarp um lækkun atvinnutryggingagjalds eins og 2. gr. laga um tryggingagjald kveður á um. Samtök atvinnulífsins krefjast þess að gjaldið verði lækkað í 2,87% og tryggingagjöld í heild í 7,71%."








Fleiri fréttir

Sjá meira


×