Skoðun

Gíslatakan í Borgartúni

Markús Möller skrifar
Undanfarið hafa Samtök atvinnulífsins gert háværar kröfur á þjóðina. Eignarhald á kvóta skuli fest til langs tíma, annars hafið þið verra af. Það þekkist víðar að taka fémuni og jafnvel fólk í gíslingu þar til kröfur á blásaklausar manneskjur nást fram. Þeir sem slíkt stunda eru kallaðir fjárkúgarar og jafnvel hryðjuverkamenn. Í hinum siðaða heimi er þeim stungið í tugthús, ef sekt telst sönnuð.

Hvað segir vinnulöggjöfin?Lög um vinnudeilur kveða á um svipaða hegðun og SA iðkar. Þar segir í 17. grein (með úrfellingum): Óheimilt er og að hefja vinnustöðvun ... ef tilgangur vinnustöðvunarinnar er að þvinga stjórnarvöldin til að framkvæma athafnir, sem þeim lögum samkvæmt ekki ber að framkvæma, eða framkvæma ekki athafnir, sem þeim lögum samkvæmt er skylt að framkvæma... Og í 19. grein: Vinnustöðvanir í skilningi laga þessara eru verkbönn atvinnurekenda og verkföll þegar launamenn leggja niður venjuleg störf sín ... Sama gildir um aðrar sambærilegar aðgerðir...

Samtök atvinnulífsins hafa að sönnu ekki boðað formlegt verkbann, en hitt er dagljóst að hegðun þeirra gengur þvert á anda laganna. Fjárkúgun er ljótur leikur, eins þegar hún fer framhjá lögum fremur en þvert á þau. Á skal að ósi stemma.

Óábyrg meðferð á flautuTugthús landsins eru full og kjánalegt að brúka harkalegri viðurlög en þörf er á. Hvað á þá að gera við þá sem misbeita valdi sem þeir fá að lögum – í þessu tilviki til að fara með umboð fjölda aðila þrátt fyrir almenna kröfu um samkeppni? Ég man eftir bikarleik í Laugardal fyrir nær fimmtíu árum, milli KR og Keflavíkur. Þar stóð álengdar náungi sem var óánægður með gang leiksins, sérstaklega dómarann, og lá ekki á því. Síðast gekk svo fram af honum að hann hrópaði yfir sig: „Getur ekki einhver tekið flautuna af manninum?“ Er það ekki hugmynd? Væri ekki ráð að banna mönnum og samtökum með gíslatökutilburði að koma nálægt vinnudeilum og öðru mikilvægu starfi á vinnumarkaði í tiltekinn tíma? Hvað er einn valdsmaður þegar búið er að taka af honum flautuna?

Hver kaus þá?Annað atvik dúkkar líka upp í minningunni. Ég var einhverju sinni á landsfundi ónafngreinds flokks með fleirum að þrasa við kvótaþingmann. Þegar honum leiddist þófið sagði hann: „En strákar, það vorum við sem vorum kosnir.“ Það sljákkaði í okkur, því þetta var rétt hjá Vilhjálmi Egilssyni þá og er enn. Það er til óþurftar þegar menn kunna ekki mörk þess umboðs sem þeir hafa og virða ekki lýðræðislegt vald sem öðrum er fengið, þótt slíkt vald verði auðvitað að virða reglur lýðræðisins. En hver hefur kosið þá sem nú gera kröfu til að stýra landinu með hótunum og gíslatöku? Það gerðu sérhagsmunirnir einir, og það er ótækt að láta þá sitja yfir almannahagsmunum.




Skoðun

Sjá meira


×