Viðskipti innlent

ESA vill að fjármögnun RUV verði breytt fyrir marslok

Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) hefur lagt formlega til að Ísland breyti fyrirkomulagi á fjármögnun Ríkisútvarpsins. Frestur Íslands til þess að bregðast við tillögum ESA er í lok mars 2011.

Þetta kemur fram á vefsíðu ESA. Þar segir að markmið slíkra breytinga er að stuðla að frekara gagnsæi varðandi opinber fjárframlög til Ríkisútvarpsins og til þess að draga úr hættu á samkeppnisröskun á þeim markaði sem Ríkisútvarpið starfar.

Í raun þýðir þetta  að fjármögnunarfyrirkomulaginu yrði breytt til samræmis við viðmiðunarreglur ESA varðandi ríkisstyrki til aðila sem sjá um útsendingar í almannaþágu, sem samþykktar voru í byrjun árs 2010. 

Tillögurnar fela í sér að skilið verði á milli starfsemi Ríkisútvarpsins sem telst almannaþjónusta og þess sem lúta skal lögmálum markaðarins. Á meðal breytinganna sem ESA leggur til eru eftirtalin atriði:

Að útlista nánar umfang þeirrar aðferðar sem notuð verður við útvíkkun á opinberu þjónustuhlutverki Ríkisútvarpsins.

Að sett verði skýr leiðbeinandi viðmið um ákvörðun gjaldskrár fyrir þjónustu sem Ríkisútvarpið veitir vegna opinberrar þjónustuskyldu sinnar, s.s. aðgang að skjalasafni Ríkisútvarpsins.

Að settar verði skýrar reglur um meðferð hugsanlegrar ofgreiðslu til Ríkisútvarpsins.

Að tekinn verði af allur vafi um að öll starfsemi sem fellur utan hlutverks Ríkisútvarpsins sem veitanda almannaþjónustu skuli rekin á grundvelli markaðslögmála líkt og viðmiðunarreglur ESA mæla fyrir um.

ESA og íslensk yfirvöld hafa rætt þessar athugasemdir í tengslum við meðferð þessa máls. Ísland hefur nú þegar innleitt ákveðnar breytingar í kjölfar athugasemda ESA. Sem dæmi má nefna að eignarhaldi Ríkisútvarpsins hefur verið breytt og fært frá Mennta- og Menningarmálaráðuneytinu til Fjármálaráðuneytisins.

Með því var skilið á milli eignarhalds Ríkisútvarpsins og opinbers eftirlits með útsendingastarfsemi sem ætti að skila óháðara eftirliti með útsendingarstarfsemi Ríkisútvarpsins, að því er segir á vefsíðunni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×