Skoðun

Helgi verslunarmanna?

Stefán Einar Stefánsson skrifar
Nú gengur í garð hin mikla ferðahelgi sem tengd er frídegi verslunarmanna órjúfanlegum böndum. Oftsinnis hefur verið bent á að heiti þessarar helgar sé rangnefni enda er stór hluti verslunarmanna að störfum þessa daga. Skýringin á því liggur fyrst og fremst í félagslegum breytingum sem eiga sér rætur í auknu þjónustustigi og fleiri möguleikum til afþreyingar. Þær breytingar hafa orðið til góðs á flestan hátt, aukið atvinnu og umsvif, en þó fylgir sá böggull skammrifi að þeir sem sérstaklega eiga að njóta hins lögbundna frídags við upphaf ágústmánaðar gera það í alltof fáum tilvikum. Því miður býr verslunarfólk við langa vinnudaga og þegar margir njóta frídaga, hvort sem er að sumri til eða í aðdraganda jólanna, er álagið hvað mest í verslun og þjónustu.

Frí annan mánudag í ágúst?Úr þessu þarf að bæta en ekki er auðfundin leið til þess. Væri mögulegt að semja um að þeir sem starfa að verslun og þjónustu á frídegi verslunarmanna vinni sér inn rétt til frítöku annan mánudag í ágústmánuði án skerðingar launa? Þar með yrði atvinnurekendum ekki gert erfitt fyrir að manna stöður þegar verslunarmannahelgin gengur í garð og um leið yrði þeim sem þessi dagur er sérstaklega helgaður gert kleift að njóta þess réttar sem hann á að tryggja.

Af hverju?Einhverjir kunna að telja þessa hugmynd óframkvæmanlega eða jafnvel ósanngjarna gagnvart atvinnurekendum og öðru launafólki. Hví ætti sá sem getur aflað sér tekna á degi sem telst til stórhátíða skv. kjarasamningi að njóta þess einnig í auknum frítökurétti? Þessi spurning er eðlileg en með því að veita þeim sem eru að störfum á frídegi verslunarmanna aukafrídag í ágúst er verið að viðurkenna að mjög hefur gengið á tækifæri verslunar- og þjónustufólks til þess að njóta lögbundinna frídaga sem aðrir landsmenn telja sjálfsagða.

Góð helgi fram undanVerslunarmannahelgin er okkur flestum mikið tilhlökkunarefni. Við skulum vona að hún fari vel fram og að allir komi heilir heim. Fyrst og síðast hljótum við þó að gleðjast með verslunarmönnum, bæði þeim sem njóta hvíldar frá erli hversdagsins en ekki síður þeirra sem mæta okkur í verslunum landsins yfir helgina.




Skoðun

Sjá meira


×