Viðskipti innlent

Þarf að afskrifa 800 milljónir króna

Sparisjóðsstjóri Nýja SpKef segir alla taka á sig skell vegna stofnfjáraukningar fyrir rúmum þremur árum.
Sparisjóðsstjóri Nýja SpKef segir alla taka á sig skell vegna stofnfjáraukningar fyrir rúmum þremur árum.

 Nýi SpKef hefur ákveðið að bjóða upp á breytingar á skilmálum lána sem voru tekin til kaupa á stofnfjárbréfum Sparisjóðsins í Keflavík í desember árið 2007.

Breytingin felur í sér að lánum, hvort heldur er í íslenskum krónum eða erlendri mynt, verður breytt í krónulán til 25 ára á 3,75 prósenta vöxtum. Lánin verða færð niður að upphaflegum höfuðstól og miðast vextir við útgáfudag.

Einar Hannesson sparisjóðsstjóri segir alla taka á sig skell í málinu, ekki síst nýi sparisjóðurinn sem hafi fengið eignir úr gamla sparisjóðnum á fullu bókfærðu verði.

„Munur á stöðu lánanna eins og þau eru í dag miðað við verð- og gengistryggingu og eins og þau verða miðað við skilmálabreytingu er um 800 milljónir króna,“ segir hann og þarf sparisjóðurinn að afskrifa upphæðina.

Boðið nær til um 260 einstaklinga sem sitji uppi með verðlaus stofnfjárbréf í gamla sparisjóðnum. Ríkið tók sparisjóðinn yfir í fyrravor og færðust lán stofnfjáreigenda yfir í nýjan sparisjóð. Meðalupphæð lána er á bilinu þrjár til fimm milljónir króna. Mörg eru undir einni milljón króna en önnur talsvert hærri. Aðgerðin nær hvorki til þeirra sem hæstu lánin tóku og settu inn í einkahlutafélög né sveitarfélaga sem keyptu stofnfjárbréf í sparisjóðnum á sínum tíma. - jab






Fleiri fréttir

Sjá meira


×