Viðskipti innlent

Kópavogur: Ætla að greiða niður milljarð árlega

Kópavogur.
Kópavogur.

Tillaga að fjárhagsáætlun Kópavogsbæjar til næstu þriggja ára var lögð fram til fyrri umræðu á fundi bæjarstjórnar í gær samkvæmt tilkynningu frá bænum. Þar segir að hún sé byggð á markmiðum fjárhagsáætlunar ársins 2011 þar sem m.a. er stefnt að því að greiða inn á skuldir bæjarsjóðs um milljarð á ári næstu árin. Gert er ráð fyrir því að seinni umræða fari fram í lok febrúar.

Samkvæmt áætluninni er miðað við að rekstrarafgangur verði á samstæðureikningi næstu árin, eða 144 milljónir árið 2012, 263 milljónir árið 2013 og 365 milljónir árið 2014. Þá er stefnt að því að skuldir sem hlutfall af tekjum lækki og verði 179,5% árið 2014.

Gert er ráð fyrir því að rekstur bæjarins verði í föstum skorðum á tímabilinu og að áfram verði gætt ítrasta aðhalds. Áætlað er að framkvæma fyrir milljarð á árinu 2012, 1,1 milljarð árið 2013 og 1,6 milljarða árið 2014. Inni í þessum tölum eru fjárfestingar vegna félagslegra íbúða.

Í framkvæmdum er megináhersla lögð á að ljúka samningsbundnum verkefnum, endurbæta grunnskóla, byggja nýjan leikskóla, gera átak á leigumarkaði, taka í notkun nýtt húsnæði héraðsskjalasafns og bókasafns í efri byggðum, undirbúa stofnun nýs framhaldsskóla í bænum og endurbyggja gamla hressingarhælið og Kópavogsbæinn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×