Erlent

Mun hrapa til jarðar í janúar

Brostnar Vonir Rússneska geimvísindastofnunin hefur gefið upp von um að koma Fóbos-Grunt af stað á ný.Fréttablaðið/AP
Brostnar Vonir Rússneska geimvísindastofnunin hefur gefið upp von um að koma Fóbos-Grunt af stað á ný.Fréttablaðið/AP
Rússneska geimfarið Fóbos-Grunt, sem hefur verið fast á lágri jarðbraut síðan í nóvember eftir tæknileg mistök, mun sennilega hrapa til jarðar um miðjan næsta mánuð.

Farið átti að fara til Fóbosar, annars af tunglum Mars, lenda þar og snúa til baka með jarðvegssýni.

Vegna bilana í geimskoti náði farið ekki út fyrir gufuhvolfið og endurteknar tilraunir vísindamanna hjá rússnesku geimvísindastofnuninni, til að koma því af stað aftur, voru árangurslausar.

Talsmaður stofnunarinnar lýsti stöðu mála í liðinni viku og sagði að jarðarbúum yrði engin hætta búin þrátt fyrir að farið innihaldi geislavirk efni. Þau muni brenna upp þegar það hrapar.

Þessi uppákoma er mikið áfall fyrir Rússa. Fyrir utan kostnaðinn, sem er metinn á þriðja tug milljarða, verða þeir fyrir álitshnekki þar sem þetta var fyrsta tilraun Rússa til að senda rannsóknarfar út í geim frá árinu 1996, en far sem átti að lenda á Mars og senda heim upplýsingar brann upp í geimskotinu sökum vélarbilunar.

Þessi ógæfa veltir upp alvarlegum efasemdum um stöðu geimiðnaðarins í Rússlandi, en embættismenn segja úreltum tækjabúnaði og takmarkaðri nýliðun í faginu um að kenna.

Vísindamönnum leikur forvitni á að vita hvers eðlis Fóbos er. Hvort um sé að ræða smástirni sem hafi fest á braut um Mars, en aðrir vilja meina að Fóbos sé hluti af Mars sem hafi losnað frá eftir árekstur við annan hnött. - þj




Fleiri fréttir

Sjá meira


×