Erlent

Þriðjungur ungra Bandaríkjamanna lent í handtöku

Nær þriðjungur Bandaríkjamanna sem orðnir eru 23 ára gamlir hafa lent í því að verða handteknir einu sinni eða oftar á ævinni en þá eru umferðarlagabrot ekki tekin með í dæmið.

Þetta kemur fram í nýrri rannsókn sem tímaritið Pediatrics greinir frá. Rannsóknin byggir á svörum frá rúmlega 7.300 ungmennum sem fylgst var með á árunum 1997 til 2008. Um 30% ungmennanna höfðu verið handtekin áður en þau náðu 23 ára aldri. Og á bilinu 16% til 27% höfðu verið handtekin áður en þau náðu 18 ára aldri, mismundi eftir einstökum ríkjum Bandaríkjanna.

Ungmenni sem handtekin voru fyrir ýmis lögbrot fengu minna í laun en þau sem aldrei höfðu lent í lögreglunni, upplifðu lengri tímabil atvinnuleysis og voru í meiri hættu á að lenda í fjölskylduvandamálum. Fram kom að á aldrinum frá 19 til 22 ára eykst tíðnin á handtökum verulega hjá þessum ungmennum.

Robert Brame glæpafræðingur við háskólann í Norður Karólínu stjórnaði þessari rannsókn en hann segir að þetta sé í fyrsta sinn sem reynt er að meta á landsvísu þær afleiðingar sem handtökur hafa á líf bandarískra ungmenna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×