Erlent

Fjórtán fallnir á fjórum dögum

Mótmælendur hafa hent grjóti og eldsprengjum að hermönnum í óeirðaklæðum, sem hafa svarað með kylfum og byssukúlum.Fréttablaðið/AP
Mótmælendur hafa hent grjóti og eldsprengjum að hermönnum í óeirðaklæðum, sem hafa svarað með kylfum og byssukúlum.Fréttablaðið/AP
Hundruð hermanna réðust í gær til atlögu við mótmælendur á Frelsistorginu í Kaíró í Egyptalandi. Heilbrigðisyfirvöld staðfesta að þrír hafi verið skotnir til bana af hermönnum, og hafa þá alls fjórtán verið drepnir í átökum hers og almennings frá því á föstudag.

Mótmælendur krefjast þess að herstjórnin, sem hefur stýrt landinu frá því að Hosni Mubarak hrökklaðist frá völdum, fari frá völdum.

Mótmælendur hafa fylkt liði á Frelsistorginu og krafist breyttra stjórnarhátta síðustu þrjár vikur. Frá því á föstudag hafa hermenn ítrekað reynt að ryðja torgið. Þeir hafa beitt kylfum og skotið gúmmíkúlum að mótmælendum, en engar fréttir höfðu borist af því að þeir hafi beitt hefðbundnum skotvopnum gegn mótmælendum fyrr en í gær.

„Það rigndi byssukúlum í morgunsárið,“ segir Ahmed Saad, læknir sem staðið hefur vaktina í sjúkratjaldi sem sett hefur verið upp á torginu. Hann segir í það minnsta sex hafa verið skotna til bana í gær, tvöfalt fleiri en heilbrigðisráðuneytið fullyrðir. - bj




Fleiri fréttir

Sjá meira


×