Erlent

15 ára drengur skotinn á Tahrir torgi

Mótmælendur bera lík fallins félaga.
Mótmælendur bera lík fallins félaga. mynd/AFP
Öryggissveitir herstjórnarinnar í Egyptalandi gerðu áhlaup á mótmælendur á Tahrir torgi í morgun. Fregnir herma að 15 ára piltur sé í lífshættu eftir að hafa verið skotinn í bakið af meðlimum hersveitanna.

Mótmælendurnir krefjast þess að herstjórnin fari frá völdum. Herstjórnin er gagnrýnd fyrir slæma stjórnarhætti í kjölfar byltingarinnar fyrr á árinu.

Mannréttindasamtök segja herstjórnina hafa ítrekað brotið á rétti mótmælenda. Nýleg myndbandsupptaka sem sýnir meðlimi öryggissveitanna berja og traðka á ungri konu hefur vakið hörð viðbrögð víða um heim.

Hægt er að sjá myndbandið hér. Það skal tekið fram að á myndbandinu má sjá gróft ofbeldi.

Utanríkisráðherra Bandaríkjanna, Hillary Clinton, sagði hegðun öryggissveitanna vera óafsakanlega og að ofbeldið gagnvart konum Egyptalands væri smánarlegt.

Alls hafa fjórtán mótmælendur látið lífið í átökum öryggissveitanna og almennings frá því á föstudag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×