Handbolti

Guðmundur segir Landin ánægðan með að hafa samið við Löwen

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Niklas Landin í danska landsliðsbúningnum.
Niklas Landin í danska landsliðsbúningnum. Nordic Photos / Getty Images
Guðmundur Guðmundsson, þjálfari Rhein-Neckar Löwen, segir að fréttaflutningur í dönskum fjölmiðlum um meinta óánægju markvarðarins Niklas Landin séu algerlega úr lausu lofti gripnar.

Landin á að sjá eftir því að hafa samið við Löwen því hann vilji frekar fara til Kiel. Thierry Omeyer mun snúa aftur til Frakklands eftir næsta tímabil og vill Landin, sem af mörgum er talinn efnilegasti handboltamarkvörður heims, vera eftirmaður hans.

Guðmundur sagði við fréttastofu í morgun að þetta væri þvættingur. Landin hafi aldrei rætt við fjölmiðla um þessi mál og að hann væri ekki óánægður hjá félaginu.

Landin fer eftir tímabilið til Löwen frá Bjerringbro/Silkeborg í heimalandinu. Hann er 22 ára gamall og er aðalmarkvörður danska landsliðsins sem vann til silfurverðlauna á HM í Svíþjóð fyrr á þessu ári.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×