Innlent

Bændur geta framleitt sína orku sjálfir

Víða um land hefur kornrækt náð fótfestu, hálm sem fellur til má nýta sem lífrænan orkugjafa.
fréttablaðið/vilhelm
Víða um land hefur kornrækt náð fótfestu, hálm sem fellur til má nýta sem lífrænan orkugjafa. fréttablaðið/vilhelm
Erna Bjarnadóttir
Bændasamtök Íslands (BÍ) og Landbúnaðarháskólinn (Lbhí) telja raunhæft að íslenskur landbúnaður verði sjálfbær um orku með því að nýta lífræn hráefni til orkuframleiðslu. Átaksverkefni í orkumálum landbúnaðarins hefur verið hleypt af stokkunum með það að takmarki að minnka aðkeypta orku bænda um 20 prósent fyrir árslok 2015 og um 80 prósent fyrir árslok 2020.

Eins og segir í greinargerð til fjárlaganefndar frá BÍ og Lbhí miðar verkefnið að því að innleiða í íslenskan landbúnað þekkingu á framleiðslu og nýtingu orku úr lífrænum hráefnum, sem falla til á búunum eða í nágrenni þeirra, eða eru sérstaklega framleidd í þeim tilgangi.

Hagsmunirnir eru miklir fyrir bændur og samfélagið í heild. Áætluð olíunotkun landbúnaðarins í dag er um sjö milljónir lítra á ári. Það jafngildir um einum milljarði króna á núvirði miðað við verð á litaðri olíu eða um 1,7 milljarðar króna á fullu verði. Þá er sparnaður vegna raforkunotkunar ekki meðtalinn, en ekki hefur verið lagt mat á hversu mikil sú orkunotkun er.

Nýting lífrænna hráefna er margvísleg. Þekkt er framleiðsla hauggass úr mykju en jafnframt eru möguleikar að nýta hálm, sem er aukaafurð kornræktar, til orkuframleiðslu. Repjurækt til olíuframleiðslu er þegar hafin og vaxtarmöguleikar fyrir hendi, eins og Erna Bjarnadóttir, forstöðumaður félagssviðs BÍ, útskýrir. Er þá aðeins fátt eitt talið.

BÍ og Lbhí hyggjast ráða sérstaka starfsmenn vegna verkefnisins tímabundið, en jafnframt koma sérfræðingar BÍ og skólans að vinnunni eftir því sem þörf krefur.

Þegar spurt er hversu raunhæft verkefni eins og þetta sé bendir Erna á að í Noregi sé stefnt á að landbúnaður þar í landi verði óháður jarðefnaeldsneyti árið 2030.

„Málið er komið á dagskrá hjá samtökunum en hversu kröftuglega við getum gengið til verks ræðst af því hve miklu fjármagni verður úr að spila og hvernig gengur að afla samstarfsaðila. Við finnum fyrir miklum áhuga“, segir hún aðspurð um fjármögnun verkefnisins en sótt er um 20 milljón króna ríkisstyrk og áframhaldandi stuðning við verkefnið til ársloka 2015.

Fjárfesting í átaki sem þessu, segir í greinargerðinni, hefur alla burði til að skila sér margfalt til baka til samfélagsins í aukinni sjálfbærni landbúnaðarins, minni gjaldeyrisnotkun, auknu fæðuöryggi og fjölbreyttari atvinnu í dreifðum byggðum landsins.

svavar@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×