Viðskipti innlent

Afskrifar átta milljarða á þremur árum

Byggðastofnun Þörf er á 3,5 milljarða ríkisframlagi til stofnunarinnar.
fréttablaðið/vilhelm
Byggðastofnun Þörf er á 3,5 milljarða ríkisframlagi til stofnunarinnar. fréttablaðið/vilhelm
stjórnsýsla Stjórnendur Byggðastofnunar telja að stofnunin þurfi að leggja 4,3 milljarða króna á afskriftarreikning í ársreikningi 2010. Þegar hafa 2,8 milljarðar verið lagðir á afskriftarreikning en stjórnendurnir meta það svo að þörf sé á 1,5 milljörðum til viðbótar. Hefur stofnunin þá lagt samtals 8,2 milljarða á afskriftarreikning frá 2008. Þetta er upplýst í skýrslu starfshóps sem fjallaði um lánastarfsemi Byggðastofnunar í kjölfar þess að eigið fé hennar var komið undir lögbundið lágmark. Í sumar var eiginfjárhlutfallið komið í 5,18 prósent en samkvæmt lögum á eiginfjárgrunnur fjármálafyrirtækis að nema að lágmarki átta prósentum af áhættugrunni. Í skýrslunni eru ástæður svo lágs hlutfalls Byggðastofnunar sagðar framlög í afskriftasjóð, lægri vaxtatekjur en áætlað var og gengistap vegna styrkingar krónunnar. Tekið er fram að þrátt fyrir að eiginfjárhlutfall Byggðastofnunar sé undir lögbundnu marki glími hún ekki við lausafjárvanda. Stofnunin hafi handbært fé sem nemi tæpum tveimur milljörðum króna til að standa við skuldbindingar út árið. Auk þess hafi hún þriggja milljarða króna lántökuheimild samkvæmt fjárlögum. Í fimm ára rekstraráætlun Byggðastofnunar, sem gerir ráð fyrir árlegum tveggja milljarða króna útlánum og hálfs milljarðs framlagi á afskriftarreikning, telur stofnunin nauðsynlegt að ríkið leggi henni til 3,5 milljarða króna. 2,5 milljarðar verði lagðir til á þessu ári en samtals milljarður á næstu fjórum árum. bjorn@frettabladid.is





Fleiri fréttir

Sjá meira


×