Viðskipti innlent

Ásta fer í Seðlabankann

Ásta H. Bragadóttir hefur verið ráðin í starf framkvæmdastjóra rekstrarsviðs Seðlabankans, en undir það svið fellur jafnframt starfsmannastjórn í bankanum. Hún var í hópi 77 umsækjenda um stöðuna, en nokkrir þeirra drógu umsókn sína til baka.

Við mat á umsækjendum naut Seðlabankinn aðstoðar ráðgjafarfyrirtækisins Hagvangs, en viðtöl voru tekin við um 20 umsækjendur sem best uppfylltu þær kröfur sem gerðar voru til starfsins.

Ásta gengdi stöðu aðstoðarframkvæmdastjóra Íbúðalánasjóðs frá janúar 2008 og var starfandi framkvæmdastjóri um skeið, en hafði áður veitt rekstri og starfsmannahaldi sjóðsins forystu frá árinu 1999.

„Hún er Cand. Oecon frá Háskóla Íslands og hefur aflað sér margþættrar viðbótarmenntunar á sviði endurskoðunar, stjórnunar, fjármála, starfsmanna- , tölvu- og tæknimála.

Við ráðningu Ástu var einkum horft til fjölþættrar reynslu hennar af stjórnun, sem aðstoðar- og starfandi framkvæmdastjóri Íbúðalánasjóðs og yfirmanns rekstar- og starfsmannamála um árabil. Hún hefur m.a. reynslu af verkefnum er miðuðu að bættri stjórnun og skilvirkni í rekstri sjóðsins," segir í tilkynningu frá Seðlabankanum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×