Skoðun

Þjóðþingræði eða valddreifing?

Skúli Magnússon skrifar
Með júnístjórnarskránni árið 1849 var einveldi afnumið og Danmörk varð konungsríki með „þingbundinni stjórn“ (d. indskrænket-monarkisk regjeringsform). Konungur fór þó áfram með verulegar valdheimildir, bæði á sviði löggjafar- og framkvæmdarvalds.

Júnístjórnarskráin fól þannig í sér blandaða stjórnskipun þar sem æðsta vald ríkisins skiptist milli þings og þjóðhöfðingja í anda valddreifingar og gagnkvæms aðhalds („checks and balances“).

Allt frá 1849 hafði þingið ýmis spil á hendi gagnvart konungi og ráðherrum hans, m.a. gat það látið ákæra ráðherra fyrir embættisfærslur þeirra. Krafa þingsins um að enginn gæti setið á ráðherrastóli nema með stuðningi eða hlutleysi þingsins var hins vegar ekki viðurkennd í Danmörku fyrr en árið 1901 og þá eftir áratugalangar deilur.

Þótt konungur gæti áfram synjað bæði lögum og stjórnvaldserindum staðfestingar varð þróunin sú að hann hætti að nýta sér þetta vald og varð óvirkur í stjórnskipuninni. Með þessu hætti þróaðist Danmörk frá blandaðri stjórnskipun til hreins þjóðþingræðis á rúmlega hálfri öld.

Stjórnskipun Íslands eftir tilkomu heimastjórnar árið 1904, en þó einkum eftir 1918, verður með svipuðum hætti best lýst sem þjóðþingstjórn þar sem konungur gegndi eingöngu formlegu hlutverki. Með stofnun embættis forseta árið 1944, sem kjörinn skyldi í beinum kosningum og hafa sjálfstæða heimild til að synja lögum staðfestingar, lauk hins vegar tímabili hreins þjóðþingræðis með því að tekin var upp blönduð stjórnskipun undir formerkjum lýðveldis. Umfang og eðli valds forseta hefur þó verið umdeilt á lýðveldistímanum. Hin síðari ár á þetta einkum við um synjunarvald forseta, sem er þó sú heimild forseta sem hve mesta athygli fékk í aðdraganda setningar stjórnarskrárinnar. Í stjórnarskránni var hins vegar engin sjálfstæð afstaða tekin til hlutverks forseta á öðrum sviðum, t.d. að því er snertir handhöfn framkvæmdarvalds og utanríkismál.

Við þá endurskoðun stjórnarskrárinnar sem nú stendur yfir er það eitt af óumdeildum verkefnum að taka efnislega afstöðu til hlutverks forseta Íslands. Viljum við viðhalda og e.t.v. styrkja blandaða stjórnskipun (forsetaþingræði) þar sem forseti fer með raunverulegt stjórnskipulegt hlutverk og veitir þjóðþinginu aðhald? Eða viljum við þjóðþingræði (að skandinavískri fyrirmynd) þar sem stjórnskipulegt aðhald þingsins er nánast eingöngu pólitískt og bundið við almennar kosningar?

Ef fyrrnefndi kosturinn er valinn þarf að skilgreina vandlega vald forseta Íslands, en einnig þarf að huga að ábyrgð hans og aðhaldi frá öðrum stofnunum ríkisins. Ef síðarnefnda leiðin er valin kemur sterklega til greina (a.m.k. frá lagalegum sjónarhóli) að afnema embætti forseta Íslands. Eftir stæði þá þing með völd, óheft af forseta, en jafnframt skýra pólitíska ábyrgð gagnvart þjóðinni.

Eftir að hafa farið yfir þær tillögur stjórnlagaráðs sem nú liggja fyrir verður ekki séð að þessum grundvallarspurningum hafi verið svarað eða embætti forseta Íslands í raun hugsað til enda. Þar sem hér er í raun um að ræða botnstykkið í stjórnskipun lýðveldisins sem hefur þýðingu fyrir ýmis önnur atriði stjórnskipunarinnar er þetta bagalegt.

Hér er þó vart við stjórnlagaráð eitt að sakast. Sannleikurinn er sá að umræðan um hvert eigi að vera hlutverk forseta Íslands hefur verið vanþroskuð, sem m.a. kemur fram í því að sumir virðast telja það nánast sjálfsagðan hlut sem ekki þurfi að ræða að stjórnskipun Íslands eigi að vera sem þjóðþingræði með ópólitískan forseta sem sameiningartákn. E.t.v. er tímabært að við reynum að svara spurningunni hvers konar „lýðveldi“ við viljum áður en lengra er haldið í þá átt að hverfa frá núverandi stjórnskipun.




Skoðun

Sjá meira


×