Enski kylfingurinn Justin Rose sigraði á BMW meistaramótinu í golf í gær í úrslitakeppni PGA mótaraðarinnar. Þetta var þriðji sigur Rose á bandarísku mótaröðinni og er hann í ágætri stöðu fyrir lokamótið í Fed-Ex úrslitakeppninni sem fram fer í þessari viku í Atlanta. Þar er keppt um 10 milljóna dala verðlaunafé eða sem nemur um 1,2 milljörðum kr.
Rose var með fjögurra högga forskot fyrir lokahringinn en Ástralinn John Senden blandaði sér í baráttuna á lokahringnum. Rose gerði út um vonir Senden með því að vippa boltanum í holuna fyrir fugli á 17. braut. Rose endaði tveimur höggum á undan Senden. Rose er í þriðja sæti á stigalistanum fyrir lokamótið sem hefst á fimmtudaginn.
Senden endaði í öðru sæti á þessu móti á -13 en Geoff Ogilvy, sem einnig er frá Ástralíu, varð þriðji á -12. Luke Donald frá Englandi sem er efstur á heimslistanum endaði í fjórða sæti.

