Viðskipti innlent

Búast við söluþrýstingi á bréf Icelandair

Búast má við söluþrýstingi á hlutabréf í Icelandair á næstu dögum þar sem líklegt er að margir þeirra sem tóku þátt í hlutafjárútboði félagsins muni vilja leysa ágætan söluhagnað af þeim strax.

Fjallað er um málið í Markaðsfréttum íslenskra verðbréfa. Þar segir að eftir vel heppnað hlutafjárútboð í lok síðasta árs hefur Icelandair nú gert samning um viðskiptavakt við Landsbankann og Saga Fjárfestingarbanka. Tilgangurinn með viðskiptavaktinni er að efla viðskipti með hlutabréf í Icelandair í því skyni að eðlilegt markaðsverð skapist á hlutabréfunum.

Þetta eru mjög jákvæðar fréttir og gerir fjárfestingar í félaginu mun áhugaverðari en áður. Það má búast við einhverri sölupressu með bréf félagsins á næstu dögum þar sem hluti þeirra sem tóku þátt í útboðinu munu selja strax og innleysa þar með ágætan hagnað en gengi félagsins nú er um 20% hærra en gengið í útboðinu.

Árið 2011 fór ágætlega af stað á íslenskum hlutabréfamarkaði og hækkaði OMXI6ISK vísitalan um 1,31% í vikunni. Af þeim félögum sem eru skráð í vísitöluna hækkaði Marel mest eða um 8,00% en Össur lækkaði mest eða um 1,23%. Gengi hlutabréfa í Icelandair hækkaði svo um 0,63%.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×