Skoðun

Hvað hugsa foreldrar – uppsetning trampólína

Sumarið er tími trampólína og þau spretta upp í húsagörðum sem aldrei fyrr. Á nýafstöðnu þingi Landsbjargar þótti tilefni til að ræða öryggisatriði, innan slysavarnahópsins, er tengjast uppsetningu og notkun tækjanna. Til að vernda þá sem leika sér á trampólínum hefur Slysavarnafélagið Landsbjörg og Lýðheilsustöð (nú Landlæknisembættið) gefið út leiðbeinandi reglur, sem ábyrgðarmenn eru hvattir til að fara eftir þegar tækið er sett upp og við notkun á því. Víða í görðum um allt land má sjá þessi tæki. Fleiri en færri fara EKKI eftir þessum reglum sem í höfuðdráttum eru þessar:

„Meðfram trampólíninu þarf alltaf að vera að minnsta kosti 2,5 m autt svæði. Velja þarf stað sem er fjarri girðingum, gróðri og öðrum leiktækjum. Undirlagið þarf að vera stöðugt og ætti ekki að vera hart eins og malbik, heldur ætti frekar að setja það á gras. Gras dregur úr hættunni á að barnið meiði sig ef það dettur af leiktækinu. Gætið að því að ekkert sé undir trampólíninu sem gæti skaðað barnið ef það myndi hoppa niður í jörðu. Vírar sem notaðir eru til að festa leiktækið mega ekki vera fyrir ofan dúkinn svo ekki sé hætta á að barnið hoppi upp í þá.“

Það sem vekur athygli þegar uppsetning trampólína er skoðuð er að plássið í kringum þau er oft ónógt. Auk þess er vert að skoða hvernig þau eru fest niður. Börn eru oftar en ekki eftirlitslaus við leik og mörg í einu á þeim. Gróður liggur þétt upp að sumum þeirra, veggur stendur mjög nálægt hluta þeirra, ýmist húsveggur eða trépallur. Slysatíðni barna við leik á trampólínum eykst frá ári til árs og því ekki að ástæðulausu að reglur séu settar, til verndar börnum. Öðrum en forráðamönnum virðist meira í mun að vernda börnin sem kemur berlega í ljós við uppsetningu tækjanna.

Það sinnuleysi sem ríkir í vali á stöðum og uppsetningu trampólína er athyglisvert þegar til þess er hugsað að í langflestum tilfellum eru börn að leik á þessum tækjum. Hvað þarf til, til að foreldrar og forráðamenn sjái ástæðu til að fara eftur leiðbeinandi reglum við uppsetningu trampólíns og búa börnum öruggt leiksvæði spyr sá sem ekki veit.




Skoðun

Sjá meira


×