Erlent

Sænskir blaðamenn fundnir sekir í Eþíópíu

Johan Persson og Martin Schibbye
Johan Persson og Martin Schibbye mynd/AFP
Eþíópskir dómstólar hafa fundið tvo sænska karlmenn seka um stuðning við hryðjuverk. Blaðamennirnir Johan Persson og Martin Schibbye voru handsamaðir fyrir sex mánuðum í átökum uppreisnarmanna og hersveita í landinu.

Mennirnir héldu því fram að þeir hefðu komið til Eþíópíu til að fjalla um olíuvinnslu í landinu en dómarinn tók þá málsvörn ekki trúanlega. Hann sagði að mennirnir hefðu komið inn í landið ólöglega og með hjálp uppreisnarsamtaka.

Mennirnir viðurkenndu að hafa komið inn í landið ólöglega en neituðu þó öllum ásökunum tengdum hryðjuverkastarfsemi.

Forsætisráðherra Svíðþjóðar, Fredrik Reinfeldt, sagði í dag að mennirnir væru saklausir og það ætti að frelsa þá hið fyrsta. Hann sagði að sakfellingin væri alvarlegt mál og að ríkisstjórn hans stæði nú í viðræðum við stjórnvöld í Eþíópíu.

Samkvæmt fréttastofunni AFP nutu mennirnir ekki aðstoðar túlks á meðan réttarhöldunum stóð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×