Viðskipti innlent

Tæplega 1100 ábendingar bárust um bótasvik

Sigríður Mogensen skrifar

Hátt í 140 milljónir króna spöruðust á síðasta ári vegna ábendinga um atvinnuleysisbótasvik. Yfir 200 manns sem sviku út bætur voru teknir af atvinnuleysisskrá eftir ábendingar.

Vinnumálastofnun hefur átt fullt í fangi við að skrá fólk á atvinnuleysisbætur á undanförnum misserum, enda fór að bera á mikilli aukningu á atvinnuleysi strax eftir hrun. En ekki eiga allir sem skráðir eru atvinnulausir rétt á bótum og hefur komið í ljós að fjölmargir misnota kerfið.

Á síðasta ári bárust alls tæplega 1100 ábendingar vegna meintra svika á atvinnuleysisbótum, en langflestar þeirra bárust frá almenningi.

Fréttastofa fékk upplýsingar hjá stofnuninni um þetta en en eins og sjá má hér áttu flestar ábendingarnar við um svarta vinnu (59%). Næst algengastar voru ábendingar vegna ferða erlendis (29%) en samkvæmt lögum ber einstaklingum sem eru á bótum frá Íslandi að vera staddir hér á landi. Ef fólk á skrá fer til útlanda ber því að tilkynna um ferðalagið og sá tími sem fólk er statt erlendis kemur til frádráttar á næstu greiðslu. Aðrir (12%) voru m.a. taldir stunda fullt nám meðfram bótum.

Um 80% ábendinganna bárust í gegnum ábendingarhnapp á vef Vinnumálastofnunar.

Alls voru 525 ábendingar teknar til frekari skoðunar af eftirlitsdeild Vinnumálastofnunar. Þessar skoðanir leiddu til þess að 209 einstaklingar voru teknir af atvinnuleysisskrá og hjá 74 voru greiðslur stöðvaðar í 2 til 3 mánuði. Þeim sem fengu ofgreiddar bætur var gert að greiða þær til baka og oft með 15% álagi. Vinnumálastofnun áætlar að 136 milljónir króna hafi sparast fyrir tilstuðlan ábendinga á síðasta ári og eru 50 mál ennþá í skoðun.

Talið er að hert eftirlit með bótasvikum hafi í heild sparað ríkinu um 800 milljónir króna á rúmu ári. Þessi árangur náðist frá því að eftirlitsdeild stofnunarinnar var stofnuð í október í fyrra og þar til í nóvember síðastliðnum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×