Viðskipti innlent

Þjóðskráin tekur við rekstri vefsíðunnar Ísland.is

Frá 1. janúar 2011 hefur Þjóðskrá Íslands tekið að sér þróun og rekstur vefsvæðisins Ísland.is sem er upplýsinga- og þjónustuveita fyrir ríki og sveitarfélög.

Þetta kemur fram á vefsíðu stjórnarráðsins. Þar segir að markmiðið sé að hægt verði að nálgast alla opinbera þjónustu í gegnum Ísland.is og að á næstu misserum verði framboð á rafrænni þjónustu ríkis og sveitarfélaga aukið til muna.

Þjóðskrá Íslands heyrir undir nýtt innanríkisráðuneyti. Vefurinn Ísland.is fór í loftið í mars 2007 og hefur frá upphafi verið í umsjá forsætisráðuneytisins. Nú er hann hins vegar færður til rekstraraðila sem er betur í stakk búinn til að fóstra hann og styrkja til framtíðar.

Forsætisráðuneytið mun áfram bera ábyrgð á stefnumótun um rafræna stjórnsýslu og á vegum þess hefur verið settur á fót samráðshópur með fulltrúum ráðuneyta og sveitarfélaga sem sér um að útfæra nánar stefnu um rafræna þjónustu ríkis og sveitarfélaga á Ísland.is, í samvinnu við Þjóðskrá Íslands.

Markmið Ísland.is er að auðvelda aðgengi almennings að upplýsingum og þjónustu opinberra aðila á netinu. Vefurinn gegnir því lykilhlutverki í þróun og miðlun rafrænnar opinberrar þjónustu. Þar er að finna upplýsingar um hvers kyns opinbera þjónustu sem settar eru þannig fram að notendur þurfa ekki að vita hver veitir hana. Einnig er þar aðgangur að stórum hluta eyðublaða opinberra aðila.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×