Viðskipti innlent

Ekki hægt að gefa sér frekari lækkanir

Í Seðlabankanum Arnór Sighvatsson aðstoðarseðlabankastjóri, Már Guðmundsson seðlabankastjóri og Þórarinn G. Pétursson aðalhagfræðingur kynntu í gær stýrivaxtaákvörðun og efnahagsspá Seðlabanka Íslands. Fréttablaðið/Pjetur
Í Seðlabankanum Arnór Sighvatsson aðstoðarseðlabankastjóri, Már Guðmundsson seðlabankastjóri og Þórarinn G. Pétursson aðalhagfræðingur kynntu í gær stýrivaxtaákvörðun og efnahagsspá Seðlabanka Íslands. Fréttablaðið/Pjetur
Efnahagsmál Lækkunarferli stýrivaxta, sem staðið hefur frá ársbyrjun kann að vera lokið, að því er fram kom á kynningarfundi vegna vaxtaákvörðunar í Seðlabanka Íslands í gær.

Kynnt var ákvörðun peningastefnunefndar Seðlabankans um að lækka vexti bankans um 0,25 prósentustig, en það er nokkuð undir væntingum greinenda sem bjuggust við 0,25 til 0,75 prósentustiga lækkun. Vextir bankans eru nú 3,25 til 5,25 prósent.

„Þar sem horfur eru á að verðbólga verði áfram við verðbólgumarkmiðið og í ljósi þess að vextir eru í sögulegu lágmarki ríkir aukin óvissa um í hvaða átt næstu vaxtabreytingar verða. Áætlanir um afnám hafta á fjármagnshreyfingar skapa einnig óvissu til skemmri tíma,“ segir í yfirlýsingu peningastefnunefndar.

Krónan hefur veikst um 4,5 prósent frá síðustu vaxtaákvörðun, en Már Guðmundsson seðlabankastjóri sagði of snemmt að segja til um að hve miklu leyti mætti rekja veikingu hennar til tímabundinna þátta. Vaxtaákvörðunina nú yrði hins vegar bæði að skoða í ljósi stöðu krónunnar og í því samhengi að verðbólga, sem nú mælist 1,8 prósent, sé komin niður fyrir markmið bankans. „En vextirnir eru líka komnir inn á það svæði þar sem spurning vaknar um hvar jafnvægisraunvextir eru um þessar mundir,“ sagði Már, en áréttaði um leið að á tímum mikils slaka í hagkerfinu væri ekki óeðlilegt að fara niður fyrir þá.

„Nú erum við komin á þann tímapunkt að óvissa getur ríkt um í hvaða átt næstu vaxtabreytingar fara,“ sagði Már og kvað horft til þátta á borð við þróun gengis krónunnar miðað við núverandi vaxtastig, samband vaxta og gengis þegar hafin verður aflétting gjaldeyrishafta og hvernig vextir þurfi að þróast til að verðbólga haldist innan marka.

Fram kom á fundinum í Seðlabankanum í gær að fyrir lok þessa mánaðar eigi að vera tilbúin til kynningar áætlun um afnám gjaldeyrishafta, en hún eigi að taka mið af því að ekki verði verulegur óstöðugleiki á gengi krónunnar meðan á því ferli stendur. „Markmiðið er að gengisbreyting sé um það bil samhverf, þannig að það verði nánast jafnmiklar líkur á að gengið styrkist við það að afnema höftin, eins og að það veikist,“ sagði Arnór Sighvatsson, aðstoðarseðlabankastjóri.

olikr@frettabladid.is





Fleiri fréttir

Sjá meira


×