Skoðun

Brotið á fötluðum börnum

Ásta Kristrún Ólafsdóttir skrifar
Ný og breytt inntökuskilyrði í Öskjuhlíðarskóla útiloka stóran hóp þroskahamlaðra frá skólanum. Með því að meina börnum með þroskahömlun um skólavist í sérskóla brjóta fræðsluyfirvöld 17. grein grunnskólalaga frá 2008 þar sem segir: "Telji foreldrar barns, skólastjórar, kennarar eða aðrir sérfræðingar að það fái ekki notið kennslu við sitt hæfi í almennum grunnskóla geta foreldrar sótt um skólavist fyrir barnið í sérúrræði innan grunnskóla eða í sérskóla."

Í reglugerð um nemendur með sérþarfir frá 2010, 2.grein, 3. málsgrein segir: "Með sérúrræði er átt við skólavist sem kallar á málsmeðferð skv. V og VI kafla, þ.e. í sérdeildum sem reknar eru innan tiltekinna grunnskóla, skólavist í sérskóla þar sem slíkt úrræði er til staðar og sjúkrakennslu. Almennur stuðningur við nemendur í kennslustundum telst ekki til sérúrræða í þessum skilningi."

Það að foreldrar geti sótt um skólavist í sérúrræði eða sérskóla felur í sér að sérskóli eða sérdeild sé raunverulegur valkostur sem standi til boða. Í greininni stendur ekki: "geta reynt en það þýðir ekki neitt." Sveitarfélögum hlýtur að vera skylt að sjá til þess að þessi úrræði séu til staðar

Ef ný og breytt inntökuskilyrði í Öskjuhlíðarskóla eiga að standa þarf að breyta lögunum þannig að fram komi að foreldrar sumra barna sem ekki fái notið kennslu við sitt hæfi í almennum grunnskóla, geti sótt um skólavist fyrir barnið í sérskóla. Slíkt stríðir þó gegn stjórnarskrá lýðveldisins þar sem segir í annarri málsgrein 76.greinar: "Öllum skal tryggður í lögum réttur til almennrar menntunar og fræðslu við sitt hæfi."

Þótt í lögunum segi að foreldrar geti sótt um skólavist í sérúrræði eða sérdeild innan grunnskóla þá eru það orðin tóm fyrir foreldra þroskahamlaðra barna því slíkar deildir eru ekki starfræktar lengur.

Ef fræðsluyfirvöld vilja fara að lögum og virða stjórnarskrá lýðveldisins verða þau að bjóða öllum börnum sem ekki fá notið kennslu við sitt hæfi í almennum grunnskóla, uppá skólavist í sérskóla eða sérúrræði innan grunnskóla.

Þá er rétt að minna fræðsluyfirvöld á þriðju grein barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna sem Ísland er aðili að, en þar segir: "Það sem er börnum er fyrir bestu skal ávallt hafa forgang þegar teknar er ákvarðanir sem þau varða."

Ísland er einnig aðili að samningi Sameinuðu þjóðanna um fólk með fötlun en þar segir í sjöundu grein: "Í öllum aðgerðum, sem snerta fötluð börn, skal fyrst og fremst hafa það að leiðarljósi sem er viðkomandi barni fyrir bestu."

Ég hvet fræðsluyfirvöld til að fara að lögum þegar teknar eru ákvarðanir sem varða þroskahömluð börn, setja í forgang það sem þeim er fyrir bestu og virða stjórnarskrá lýðveldisins. Ég hvet fræðsluyfirvöld til að færa inntökuskilyrði Öskjuhlíðarskóla til fyrra horfs þannig að skólinn standi öllum þroskaheftum börnum til boða en ekki bara sumum.




Skoðun

Skoðun

Ert þú drusla?

Katrín Sigríður J. Steingrímsdóttir,Elísa Rún Svansdóttir,Lilja Íris Long Birnudóttir,Lísa Margrét Gunnarsdóttir,Margrét Baldursdóttir,Silja Höllu Egilsdóttir skrifar

Sjá meira


×