Skoðun

Gagn - rýni

Ásta Jóhannsdóttir skrifar
Hinn 10. nóvember síðastliðinn birtist í Fréttablaðinu og á visir.is pistill eftir Gunnar Hersvein þar sem hann fjallar um gagnrýna greiningu okkar á Öðlingsátakinu 2011. Við og Gunnar Hersveinn erum sennilega sammála í langflestum tilfellum þegar kemur að jafnréttismálum. Öllum þykir okkur fjarvera karla í umræðunni um jafnréttismál grafalvarleg og viljum endilega fá fleiri karla með í baráttuna þar sem jafnréttisbarátta er barátta allra, karla og kvenna. Okkur virðist hann þó rangtúlka orð okkar og rannsóknarniðurstöður í nokkrum atriðum og viljum því árétta þau atriði.

Fyrst viljum við þó koma á framfæri ábendingu frá einum öðlinganna sem benti á mistök af okkar hálfu. Á bls. 21 í greininni er talað um sameiginlega ábyrgð foreldra á umönnun barna og jafna þátttöku í rekstri heimilis. Við segjum að einungis Sigurður Magnússon hafi í sínum pistli fjallað um þessi mál, en Karvel Aðalsteinn Jónsson gerði það einnig í sínum pistli. Þar var hins vegar áhersla hans fyrst og fremst á rétt foreldra en ekki umönnun. Þess vegna var hans orða ekki getið í þessu samhengi.

Gunnar Hersveinn virðist telja að það þurfi mun víðtækari rannsókn og greiningu til að svara rannsóknarspurningum okkar. Við teljum okkur þó hafa svarað rannsóknarspurningunum á fullnægjandi hátt með orðræðu og þemagreiningu á pistlunum. Við takmörkuðum okkur hins vegar við pistlana sjálfa sem voru þær upplýsingar sem aðgengilegar voru. Við höfðum engar forsendur til þess að meta það hvernig fjallað var um innihald pistlanna úti í samfélaginu, hvort umræðan þar væri gagnrýnin eða ekki. Víðtækari rannsókn væri vissulega gagnleg og gæfi dýpri þekkingu. Það dregur hins vegar, að okkar mati, ekki úr gildi rannsóknarinnar.

Gunnar Hersveinn telur að draumapistlahöfundar okkar séu „menntaðir femínistar sem skrifa helst um jafnrétti á heimili og ábyrgð á börnum" og að við viljum skammta þeim efnisflokka til að skrifa út frá. Í fyrsta lagi þá nefnum við það að enginn þeirra skilgreini sig sem femínista, en gerum alls ekki kröfu um slíka skilgreiningu. Karlar sem tjá sig um jafnréttismál þurfa hvorki að vera menntaðir né skilgreina sig sem femínista og hvað þá heldur að þeir megi einungis tala um jafnrétti á heimili og ábyrgð á börnum.

Athugasemd okkar er við útgangspunkt átaksins, að útgangspunkturinn þurfi að vera persónulegri til þess að koma í veg fyrir bergmál kynjakerfisins. Ástæðan fyrir áherslu okkar á jafnrétti á heimilum og umönnun barna er sú að jafnrétti á persónulega sviðinu er ákveðin forsenda fyrir jafnrétti á opinbera sviðinu. Í öðru lagi, þá fengu öðlingarnir 2011 ákveðna efnisflokka til þess að velja úr þegar þeir voru beðnir um að taka þátt í átakinu. Ekkert slíkt er lagt til af okkur.

Gunnar Hersveinn leggur áherslu á mikilvægi þess að fjölga körlum í umræðunni og það hafi Þórdísi Elvu tekist. Þar erum við algjörlega sammála, en það er ekki þar með sagt að þetta átak sé yfir alla gagnrýni hafið. Ekki frekar en rannsókn okkar.

Gunnar Hersveinn virðist telja að við séum að hæðast að körlum sem skrifi undir öðlingsnafninu. Það gerum við ekki þó að við veltum því upp í greininni hvort öðlingshugtakið hafi haft áhrif á hvernig karlarnir nálguðust viðfangsefnið. Það má velta því fyrir sér hvort hann sé að vísa í greinina „Tussan" sem birtist á hugras.is sem hann tiltekur sem heimild í pistli sínum. Hún er hins vegar ekki okkar verk.

Gunnar Hersveinn undirstrikar að Öðlingurinn 2011 hafi verið „…vitundarvakning sem fólst í því að heyra sjónarhorn nokkurra karla." Hann telur að „…markmiðið hafi einnig verið að kanna hvort karlar sem lesa aldrei neitt um jafnréttismál myndu ef til vill lesa þetta og síðan meira og fleira eftir bæði kynin og taka loks þátt í umræðunni. Ekki er vanþörf á".

Frábær hugmynd og góðra gjalda verð. Ef fólk sem er ekki vant að lesa um jafnréttismál les svo pistla um jafnréttismál sem bergmála kynjakerfið og festa það í sessi, t.d. mýtur um að konur séu að sigra heiminn, þá er tilganginum sennilega ekki náð.

Fjarvera karla er vandi, um það er ekki deilt hér. Jafnréttisátak þarf hins vegar alltaf að gagn-rýna, rýna til gagns. Rannsóknir hafa sýnt að það sé alls ekki sjálfgefið að jafnréttisátak leiði til aukins jafnréttis. Við hljótum að vera sammála um að jafnréttisátak eigi að stuðla að jafnrétti. Orðræðugreining á pistlunum sýnir að þó nokkrir þeirra bergmála kynjakerfið. Það teljum við ekki líklegt til árangurs. Þaðan sprettur þessi tillaga okkar um að útgangspunktur næsta átaks verði persónulegri: Hver er persónulegur ávinningur minn af kynjajafnrétti? Sú tillaga er þó auðvitað alls ekki yfir gagnrýni hafin. Við vonumst því til að næsta átak, sama hvaða útgangspunktur verður tekinn, verði gagn – rýnt til þess að markmiðum þess verði betur náð.


Tengdar fréttir

Að falla í kynjagryfjur eða ekki

Fjarvera íslenskra karlmanna á vettvangi jafnréttismála er alvarlegur vandi. Þeir eru velkomnir en mæta ekki og tjá sig sjaldan. Það er líkt og þeim finnist betra að þegja en verða aðhlátursefni. Þórdís Elva Þorvaldsdóttir lista- og fréttamaður og Fréttablaðið gerðu tilraun til að breyta þessu með Öðlingsátakinu 2011.




Skoðun

Sjá meira


×