Viðskipti innlent

Ferðaskrifstofa Akureyrar eykur umsvifin

Nú um áramótin tók ný innanlandsdeild Ferðaskrifstofu Akureyrar formlega til starfa og mun megin hlutverk hennar verða skipulag á ráðstefnum, fundum og hvataferðum á Akureyri og Norðausturlandi.

Í tilkynningu segir að Hrafnhildur E. Karlsdóttir stýri þessu verkefni hjá FA og hóf hún störf um áramótin. Hrafnhildur hefur um árabil gegnt stjórnunarstöðum hjá Keahótelum ehf. og var einnig á sínum tíma forstöðumaður Upplýsingamiðstöðvar ferðamanna á Akureyri.

Fyrstu ráðstefnurnar á vegum innanlandsdeildar FA hafa þegar verið bókaðar á Akureyri á þessu ári og þar af eru stórar alþjóðlegar ráðstefnur. Hrafnhildur segir markmiðið að laða bæði stórar ráðstefnur sem minni fundi á svæðið, jafnt erlendis frá sem innanlands.

„Við byggjum á gömlum og rótgrónum grunni Ferðaskrifstofu Akureyrar sem hefur í gegnum áratugina skapað sér gott orð í þjónustu við viðskiptavini sína. Hér á svæðinu hafa opnast ný tækifæri á þessu sviði, fyrst og fremst með tilkomu menningarhússins Hofs og nýbyggingar Háskólans á Akureyri," segir Hrafnhildur.

„Í báðum þessum húsum er mjög góð aðstaða til ráðstefnuhalds sem ekki hvað síst opnar okkur ný tækifæri hvað varðar stærri ráðstefnur og fundi. Nú er einnig að verða aukning í gistirými hér á Akureyri á næstu misserum og það, ásamt fjölbreyttri flóru í veitingastarfsemi, styrkir þann grunn sem við höfum til að sækja fram á ráðstefnusviðinu."








Fleiri fréttir

Sjá meira


×