Viðskipti innlent

Mikil aukning í notkun áls í bílaiðnaði

Þegar Audi ákvað að styðjast við ál að öllu leyti í yfirbyggingu Audi A8 árið 1994 lækkaði þyngd yfirbyggingarinnar úr 441 kg í 247 kg.
Þegar Audi ákvað að styðjast við ál að öllu leyti í yfirbyggingu Audi A8 árið 1994 lækkaði þyngd yfirbyggingarinnar úr 441 kg í 247 kg. Mynd/Wikimedia
Álnotkun í bandarískum bílaiðnaði mun aukast um allt að 70% fram til ársins 2025 samkvæmt nýlegri könnun. Í tilkynningu frá Samáli, samtökum álframleiðenda hér á landi segir að svipuð þróun sé að eiga sér stað hjá evrópskum og japönskum bílaframleiðendum. Líklegt er talið að þessi þróun leiði til tvöföldunar á álnotkun í framleiðslu bifreiða og muni hún nema um 14 milljónum tonna á ári 2020.

„Sívaxandi kröfur um sparneytnari bifreiðar mun auka verulega notkun áls við bílaframleiðslu í Bandaríkjunum. Að meðaltali verða notuð 150 kíló af áli í hverja bifreið sem framleidd verður fyrir Bandaríkjamarkað árið 2012, eða sem samsvarar um 5% aukningu frá 2009. Samkvæmt könnun sem gerð var meðal bandarískra bílaframleiðenda er gert ráð fyrir að árið 2025 verði álnotkun í bílaiðnaði að meðaltali um 250 kg, eða sem samsvarar tæplega 70% aukningu frá 2009,“ segir ennfremur.

Þá er þess getið að hvert kíló af áli sem notað sé við smíði bifreiðar í stað stáls létti bifreiðina að jafnaði um 1 kg. „Miðað við ofangreindar áætlanir mun aukin notkun áls í bandarískum bílaiðnaði létta  bifreiðarnar um liðlega 100 kíló. Áætlað er að fyrir hver 100 kíló sem bifreið er létt um sparist 9 g af CO2 á hverja 100 ekna kílómetra.“

„Svipuð þróun á sér stað í evrópskum og japönskum bílaiðnaði. Þannig hafa japönsk stjórnvöld nýverið sett bílaframleiðendum þar í landi það markmið að minnka eldsneytiseyðslu japanskra bifreiða um 24% fyrir árið 2020. Þessi þróun mun stuðla að umtalverðri aukningu í álnotkun í bílaiðnaði. Gert er ráð fyrir því að árið 2020 muni árleg notkun áls í bílaiðnaði nema nærri 14 milljónum tonna samanborið við um 7 milljónir tonna í dag. Heimsframleiðsla á áli mun í ár nema um 40 milljónum tonna,“ segir einnig.

„Í bílaiðnaði er algengast að ál sé notað í húdd, skottlok og hurðir auk vélarhúss. Þó eru umtalsverðir möguleikar til enn frekari notkunar. Sem dæmi má nefna að þegar Audi ákvað að styðjast við ál að öllu leyti í yfirbyggingu Audi A8 árið 1994 lækkaði þyngd yfirbyggingarinnar úr 441 kg í 247 kg. Að auki tókst fyrirtækinu að spara um 45 kg til viðbótar í þyngd bifreiðarinnar þar sem unnt var að minnka vélarstærð og stærð eldsneytistanks. Alls var því unnt að létta bílinn um 240 kg með notkun áls í stað stáls.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×