Skoðun

1-2-3-4: Barn deyr

Petrína Ásgeirsdóttir skrifar
Í dag er Alþjóðlegur dagur ljósmæðra. Af því tilefni hafa Barnaheill – Save the Children, Alþjóðasamband ljósmæðra og White Ribbon Alliance tekið sig saman um að skora á þjóðir heims að setja í forgang að tryggja aðgengi að ljósmæðrum og öðrum heilbrigðisstarfsmönnum í þeim löndum þar sem dánartíðni mæðra og barna er hvað hæst. Með því væri t.a.m. Ísland að standa með virkum hætti við skuldbindingu sína við stefnu aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna, „Hver kona, hvert barn“ (e. Every Woman Every Child), sem ætlað er að tryggja að þau þúsaldarmarkmið er lúta að heilsu náist fyrir árið 2015.



Engin móðir, hvar svo sem hún býr, ætti að þurfa að hætta lífi sínu eða lífi ófædds barns síns, með því að fara í gegnum fæðingu án faglegrar aðstoðar. Engu að síður fæða um 48 milljónir kvenna börn sín árlega án stuðnings frá manneskju með þekkingu á fæðingarhjálp. Afleiðingar þessa eru skelfilegar. Ríflega 340 þúsund konur deyja ár hvert og milljónir til viðbótar þjást af sýkingum og verða fyrir örorku vegna erfiðleika í fæðingu sem hefði mátt koma í veg fyrir. Ríflega 800 þúsund börn deyja í fæðingu og yfir 3 milljónir barna deyja fyrir eins mánaðar aldur.



Alþjóðaheilbrigðisstofnunin (e. WHO) telur að fram til ársins 2015 vanti 3,5 milljónir heilbrigðisstarfsmanna, þ.m.t. ljósmæður, svo hvert mannsbarn hafi aðgang að heilbrigðisþjónustu. Ljósmæður og aðrir heilbrigðisstarfsmenn eru grunnurinn í allri heilsugæslu. Ef þeirra nyti ekki við, myndu milljónir mæðra og barna ekki geta reitt sig á neinn til að greina og meðhöndla sjúkdóma, veita meðferðir, aðstoða við fæðingar, bólusetningar og gefa ráð um hvernig hægt er að viðhalda heilbrigði og koma í veg fyrir sýkingar.



Ríkar þjóðir og fátækar verða að vinna saman að því að tryggja að nægir heilbrigðisstarfsmenn séu í heiminum fyrir alla íbúa hans. Mörg þróunarríkja hafa skuldbundið sig til að efla heilbrigðisstéttir sínar, til samræmis við stefnu SÞ, „Hver kona, hvert barn“. Lönd á borð við Ísland verða einnig að gera sitt til að þróa og koma á sjálfbærri og árangursríkri áætlun um fjölgun heilbrigðisstarfsmanna svo bæta megi heilsu mæðra, nýbura og barna hvarvetna í heiminum.



Þó dánartíðni barna hér á landi sé með því allra lægsta sem gerist, getum við ekki sætt okkur við að á fjögurra sekúndna fresti deyi barn í heiminum, oftast af orsökum sem koma hefði mátt í veg fyrir með einföldu eftirliti heilbrigðisstarfsmanns.




Skoðun

Sjá meira


×