Handbolti

Ágúst: Við þolum ekki mikið fleiri áföll í viðbót

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Íslenska kvennalandsliðið í handbolya hélt í morgun til Brasilíu þar sem að Heimsmeistaramótið hefst á föstudaginn. Íslenska liðið ætlar sér upp úr riðlinum. Ágúst Þór Jóhannsson, landsliðsþjálfari, var í viðtali hjá Guðjón Guðmundssyni íþróttafréttamanni á Stöð 2 Sport.

Til þess að komast upp úr riðlinum þá þurfa íslensku stelpurnar að vinna Kína og Afríkumeistara Angóla en landsliðsþjálfarinn er bjartsýnn á að það takist nái íslenska liðið að spila sinn besta leik. Noregur, Þýskaland og Svarfjallaland eru hinsvegar erfiðari andstæðingar.

„Þetta eru auðvitað allt gríðarlega sterkar þjóðir en við komum til með að taka einn leik í einu og reynda undirbúa okkur vel fyrir hvern einasta leik. Fyrsti leikurinn er við Svartfjallaland og það verður gríðarlega erfitt. Möguleikarnir eru alltaf til staðar ef við eigum toppdag og andstæðingarnir hitta ekki alveg á sinn besta dag," sagði Ágúst Þór Jóhannsson.

„Við þolum ekki mikið fleiri áföll í viðbót en ég var nokkuð ánægður með gengi liðsins í leikjunum á móti Tékkum og það hefur verið fínn stígandi í leik liðsins. Ég vona að það haldi bara áfram og við verðum í góðu standi í næstu viku," sagði Ágúst.

„Ég óttast ekkert eitt en við þurfum bara að vera jafnari í okkar spilamennsku. Þegar við höfum verið að spila illa þá hafa gæðin farið ansi langt niður og við þurfum því að stytta slöku kaflana okkar og halda meiri gæðum í þeim," sagði Ágúst.

Heimsmeistarakeppni kvenna sem hefst á föstudaginn í Brasilíu verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport en fyrsti leikur Íslands verður á laugardaginn klukkan fimm. Upphitun Þorsteins Joð Vilhjálmssonar hefst hálftíma fyrir leik.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×