Handbolti

Rúnar skoraði fjögur í naumu tapi

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Rúnar í leik með Bergische.
Rúnar í leik með Bergische. Nordic Photos / Getty Images
Rúnar Kárason skoraði fjögur mörk er lið hans, Bergischer HC, tapaði naumlega fyrir Göppingen í þýsku úrvalsdeildinni í dag, 32-31.

Staðan var jöfn í hálfleik, 16-16, en Göppingen náði undirtökunum í seinni hálfleik og var með fimm marka forystu þegar tvær mínútur voru til leiksloka.

En Bergischer náði að skora fjögur mörk á síðustu tveimur mínútunum en það dugði ekki til. Felix Lobedank skoraði tíu mörk fyrir Göppingen en Jens Rainarz var markahæstur hjá Bergischer með sjö mörk.

Þá unnu meistararnir í Hamburg öruggan sigur á Balingen-Weilstetten, 36-22, og fyrr í dag hafði Lübbecke betur gegn Hüttenberg, 35-28.

Hamburg er í öðru sæti með sextán stig, tveimur á eftir Kiel sem á leik til góða gegn Füchse Berlin á morgun. Bergischer er í fimmtánda sæti með fjögur stig.

Það var einnig spilað í þýsku B-deildinni í dag. Fannar Friðgeirsson skoraði tvö mörk fyrir Emsdetten sem vann Ludwigshafen-Friesenheim, 23-21, og Eisenach, lið Aðalsteins Eyjólfssonar þjálfara, hafði betur gegn Bad Schwartau, 32-24.

Emsdetten er í þriðja sætinu með tólf stig en Eisenach í því tíunda með átta.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×