Skoðun

Nafnabirting mismunar umsækjendum

Gunnar Haugen skrifar
Nýlegur úrskurður Persónuverndar um nafnabirtingu umsækjenda í sumarstarf hjá RÚV sýnir enn og aftur þær villigötur sem nafnabirtingar í opinberum ráðningum leiða opinber fyrirtæki á. Umsækjandi um starfið vildi ekki að nafn hans yrði birt, enda starfandi hjá samkeppnisaðila RÚV. Persónuvernd úrskurðaði engu að síður að birting nafns, heimilisfangs og starfsheitis umsækjanda væri í samræmi við lög.

Umsækjandinn stendur því líkt og margir aðrir, sem íhuga að sækja um störf hjá hinu opinbera, frammi fyrir tveimur kostum. Að sækja um og eiga á hættu að umsóknin geti haft neikvæð áhrif á framgang hans í núverandi starfi þegar og ef af umsókninni fréttist, eða sleppa því hreinlega að sækja um starfið. Báðir kostirnir eru slæmir fyrir umsækjandann. Annað hvort þarf hann að leggja framgang sinn í núverandi starfi að veði eða fórna þeim starfstækifærum sem í boði eru hjá opinberum fyrirtækjum.

Því miður er það svo að fjöldi hæfra umsækjenda um opinber störf velur þann kost að draga umsóknina til baka frekar en að eiga á hættu að fá nafn sitt til umfjöllunar í fjölmiðlum, á ættarmótum og annars staðar þar sem fólk kemur saman. Reynsla okkar hjá Capacent sýnir að um 15-20% umsækjenda um opinber störf draga umsókn sína til baka þegar kemur að opinberri nafnabirtingu. Þessu til viðbótar eru svo þeir sem leggja ekki inn umsókn vegna reglna um nafnabirtingar. Stærð þess hóps er óþekkt en vafalaust er þar um nokkurn fjölda að ræða.

Þetta þýðir að í landinu eru að myndast tveir hópar; þeir sem geta sótt um opinberar stöður og þeir sem geta það ekki. Þetta hefur annars vegar í för með sér að opinber fyrirtæki missa af hæfum umsækjendum og hins vegar að tilteknum hópi einstaklinga er haldið utan opinberra starfa.

Að baki nafnabirtingar liggur m.a. sú hugmyndafræði að almenningur geti séð hverjir sækja um starf og þannig dragi úr þeim tilvikum þar sem því er haldið fram að hæfasti einstaklingurinn hafi verið ráðinn, án þess að almenningur viti hverjir voru til samanburðar.

Gagnsæi er mikilvægt en það má ekki leiða til mismununar – nafnabirting umsækjenda býður upp á mismunun. Sumir geta sótt um, aðrir ekki.

Ekki er við Persónuvernd að sakast í þessu máli, enda hlutverk hennar að túlka og framfylgja fyrirliggjandi lögum og reglugerðum um nafnabirtingar. Þeim verður að breyta þannig að allir hafi tök á að sækja um opinber störf án þess eiga á hættu að fórna núverandi starfi. Markmiði laganna þarf að ná fram með öðrum hætti.




Skoðun

Sjá meira


×