Skoðun

Reykvísk skákbörn styðja sveltandi börn í Sómalíu

Helgi Árnason skrifar
Það er vel til fundið hjá Skákakademíu Reykjavíkur í samstarfi við Skáksamband Íslands að efna til skákmaraþons nú um helgina, dagana 6. og 7. ágúst. Málstaðurinn er góður og bráðnauðsynlegur, að styðja söfnun Rauða krossins við sveltandi og sárþjáð börn í Sómalíu. Mikil vakning hefur orðið meðal reykvískra skólabarna í skáklistinni og er það ekki síst að þakka starfsemi Skákakademíu Reykjavíkur sem hefur staðið fyrir skákkennslu í grunnskólum borgarinnar.

Skákmaraþonið sem fram fer í Ráðhúsi Reykjavíkur markar einnig upphaf að viðamiklum undirbúningi tveggja skáksveita Rimaskóla fyrir þátttöku í Norðurlandamótum barnaskólasveita og grunnskólasveita sem fram fara nú í ágúst og september. Rimaskólakrakkarnir urðu Íslandsmeistarar í báðum aldursflokkum fyrr á árinu. Skáksveitir skólans hafa á undanförnum árum verið mjög sigursælar á Íslands- og Norðurlandamótum.

Skákkrakkarnir bjóða gestum og gangandi upp á að tefla skák og greiða um leið mikilvægt fjárframlag til söfnunar Rauða krossins fyrir nauðstödd börn í Sómalíu.

Þar sem nánast allir Íslendingar telja sig kunna mannganginn og skákin er í hugum okkar Íslendinga ein af þjóðaríþróttunum, þá vil ég skora á sem flesta borgarbúa að líta við á skákstað í Ráðhúsinu og tefla við skákkrakkana efnilegu sem vita ekkert skemmtilegra en að tefla við hvern sem er. Framtak Skákakademíunnar er lofsvert og árangurinn verður hvetjandi fyrir reykvísku skákkrakkana. Þau eru þess fullviss að í gegnum áhugamálið nái framtak þeirra að bjarga mörgum mannslífum sveltandi og sárþjáðra barna.




Skoðun

Sjá meira


×