Handbolti

Frábær sigur hjá Füchse Berlin

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Alexander Petersson í leik með Füchse Berlin.
Alexander Petersson í leik með Füchse Berlin. Nordic Photos / Bongarts
Lærisveinar Dags Sigurðssonar hjá Füchse Berlin unnu í dag góðan sigur á pólska liðinu Kielce eftir að hafa verið lengst af undir í leik liðanna í Meistaradeild Evrópu.

Füchse Berlin vann að lokum þriggja marka sigur, 30-27, eftir að hafa verið marki undir í hálfleik. Alexander Petersson lék á hægri vængnum hjá Füchse Berlin og Þórir Ólafsson í hægra horninu hjá Kielce. Alexander skoraði þrjú mörk í leiknum og Þórir eitt.

Pólverjarnir byrjuðu betur í leiknum og náðu forystunni snemma. Leikmenn Füchse Berlin náðu þó að berja frá sér og jafna leikinn í stöðunni 14-14. Kielce skoraði þó síðasta mark fyrri hálfleiks og því staðan 15-14, gestunum í vil, þegar seinni hálfleikur hófst.

Jafnræði var með liðunum eftir það en Kielce þó ofast skrefi framar. Daninn Torsten Laen náði að jafna metin þegar um fjórar mínútur voru til leiksloka og staðan 27-27.

Laen kom svo Berlínarbúum yfir með marki úr hraðaupphlaupi eftir stoðsendingu Alexanders stuttu síðar en tékkneski markvörðurinn Petr Stochl átti einnig mikinn þátt í sigrinum þar sem hann hreinlega lokaði marki Füchse Berlin á lokakaflanum.

Heimamenn gengu á lagið og þegar uppi var staðið skoruðu þeir síðustu fjögur mörk leiksins og tryggðu sér þar með þriggja marka sigur sem fyrr segir.

Füchse Berlin gerði í fyrsta leik jafntefli við rússneska liðið Chekhovskie Medvedi á útivelli og er liðið því enn ósigrað á sínu fyrsta tímabili í Meistaradeildinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×