Handbolti

Karabatic hafði betur gegn Kiel í Þýskalandi

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Alfreð Gíslason er þjálfari Kiel.
Alfreð Gíslason er þjálfari Kiel. Nordic Photos / Getty Images
Montpellier vann sterkan útisigur á þýska stórliðinu Kiel í Meistaradeild Evrópu í dag, 24-23, með frábærri frammistöðu í seinni hálfleik.

Alfreð Gíslason er þjálfari Kiel og Aron Pálmarsson leikur með liðinu. Hann kom þó ekkert við sögu vegna meiðsla í dag.

Nicola Karabatic var lengi á mála hjá Kiel en leikur í dag með Montpellier. Hann skoraði þrjú mörk í dag en markahæstur Frakkanna var William Accambray með átta mörk. Filip Jicha skoraði sex mörk fyrir Kiel.

Kiel byrjaði leikinn mjög vel og náði snemma 5-2 forystu. Frakkarnir náðu þó að jafna leikinn stuttu síðarn en heimamenn náðu þó undirtökunum aftur og höfðu fjögurra marka forystu hálfleik.

Leikmenn Montpellier bitu þó frá sér í síðari hálfleik og höfðu forystu, 22-20, þegar tæpar tíu mínútur voru til leiksloka. Kiel náði þó að jafna metin, 22-22, og voru lokamínúturnar æsispennandi.

Frakkarnir komust yfir, 23-22, þegar um þrjár mínútur voru eftir en Kiel náði svo að jafna metin þegar tæp mínúta var eftir. Accambray kom Montpellier aftur yfir þegar 20 sekúndur voru eftir og missti Kiel svo boltann í næstu sókn. Úrslitin voru því ráðin.

Markverðir beggja liða, þeir Thierry Omeyer hjá Kiel og Primoz Prost hjá Montpellier átti báður stórleik í dag.

Bæði lið unnu leiki sína í fyrstu umferð riðlakeppninnar en Montpellier og AG Kaupmannahöfn eru nú bæði með fjögur stig í efsta sæti riðilsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×