Skoðun

Arnarnes fyrir alla

Jóhannes Kári Kristinsson skrifar
Þann 31. mars sl. var haldinn fundur í Garðabæ, þar sem fyrsti áfangi að deiliskipulagi Arnarness var kynntur. Vil ég hér með þakka það vandaða starf sem arkitektastofan Hornsteinar vinnur í tengslum við þessa þróun. Fundurinn var áhugaverður, m.a. var gaman að fá kynningu á hinum ýmsu menningarverðmætum sem eru á nesinu, hversu vel skipulagt Arnarnes var á sínum tíma og mikil vinna lögð í að skapa þessa vel heppnuðu byggð.



Mesta athygli vakti þó umræða um útivistarmál í Arnarnesi. Garðbæingur steig á svið og studdi þá hugmynd að leggja tvo stíga á Arnarnesi til að beina umferð fólks, hvort sem er hjólamanna eða gangandi, frá umferðargötum. Annar stígurinn yrði lagður austan hljóðmanar við Hafnarfjarðarveg, einkum fyrir hraða hjólaumferð. Hinn stígurinn yrði strandstígur í kringum nesið. Þessi stígur yrði mikil framför, þar sem allir íbúar Garðabæjar fengju jafnan aðgang að stórkostlegu útsýni og náttúru á nesinu.



Nokkrir eldri Arnarnesbúar hafa sagt möguleikana á því að sjá fallegt sólarlagið nú enga þar sem trén byrgja víða sýn. Þeir komast ekki niður torfæran sjávarkambinn og í fjöruna og má það sama auðvitað segja um hreyfihamlaða. Arnarnesbúi á fundinum lýsti því yfir að hann vildi ekki hrófla við neinu á Arnarnesinu, síst af öllu opna fyrir verslun eða aðra þjónustu á Arnarnesinu, þar sem Arnarnesbúar gætu sótt þá þjónustu annars staðar í Garðabæinn.



Hér koma nokkrar spurningar til íbúa Arnarness: Eiga nokkrar sjávarlóðir í Garðabæ einkarétt á útsýni yfir Arnarnesvoginn? Þó að fullfrískt fólk geti klöngrast niður í Arnarnesfjöru eins og ástandið er nú, er þar víða erfitt yfirferðar og útsýnispunktar eða stikur sem eiga að þjóna sem einhver millibilslausn koma engan veginn í staðinn fyrir útsýnisstíg, þar sem fólk getur valið sjálft hvar það staldrar við.



Önnur spurning: Finnst Arnarnesbúum það sanngjarnt að sækja alla þjónustu, hvort sem er til verslunar, mennta, útiveru eða menningar, í aðra hluta Garðabæjar og á sama tíma neita öðrum Garðbæingum um að njóta strandarinnar og útsýnis þaðan í sínu eigin byggðarlagi? Og í framhaldinu: Myndi það ekki auðga Arnarnesið að fá til sín líf frá öðrum hverfum bæjarins, líf sem hefur auðgað önnur nes sem hafa verið í svipaðri stöðu, s.s. Kársnes.

Að lokum þetta: Á fundinum steig fuglaáhugamaður á svið, sem hefur auðgað fuglalíf í kringum sig í fjölda ára með framkvæmdum við hús sitt, m.a. með stórum krana í fuglslíki, og lýsti yfir áhyggjum sínum yfir samlífi fugla og manna yrði slíkur stígur lagður. Þessi hugulsemi er þó óþörf þar sem í næsta hverfi, Sjálandinu, njóta íbúar hins fjölbreytta fuglalífs sem þar ríkir með greiðum aðgangi strandstígsins sem þar er. Kannski er mannlífið ekki síður mikilvægt en fuglalíf ef út í það er farið. Á fundinum kom fuglaáhugamaðurinn jafnframt fram með niðurstöður framhaldsrannsókna sinna um að mun minna fuglalíf væri í Kársnesi en í Arnarnesi. Gæti ekki bara verið að fuglunum þyki jafnvel ennþá betra að búa í Garðabæ?




Skoðun

Sjá meira


×