Skoðun

Jóhanna og traustið

Helgi Magnússon skrifar
Á þjóðhátíðardögum eiga ýmsir ræðumenn það til að verða yfirmáta jákvæðir í garð meðborgaranna og væmnir í meira lagi. Að þessu sinni kvað mjög rammt að þessu á Íslandi vegna 200 ára afmælis Jóns Sigurðssonar.

Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra las ræðu á Austurvelli að morgni 17. júní og sagði þar m.a.: „Lykillinn að betri tíð er samstaða þjóðarinnar og traust manna í millum.“

Nú ætti það að vera fullkomlega eðlilegt að forsætisráðherra leggði sig fram um að auka traust milli manna í þjóðfélaginu. Auka traust milli hópa, landshluta, hagsmunaaðila og stjórnmálaflokka. En hefur ráðherrann lagt sig fram um það?

Þann 29. maí, fyrir tæpum þremur vikum, réðist hún gegn stórum hópi landsmanna með fáheyrðum svívirðingum á flokksstjórnarfundi Samfylkingar. Jóhanna Sigurðardóttir sagði þá m.a.:

„Ofurlaunaliðið, fjárglæframennirnir og stóreignaelítan fá ekki að soga til sín hagvöxtinn sem fram undan er…nóg að þjóðin hafi þurft að greiða fyrir síðasta gleðskap þessa fólks.

Sú svallveisla var haldin undir lúðrablæstri frjálshyggjutrúboðs Sjálfstæðisflokksins.“

Þriðjungur þjóðarinnar fjárglæframenn?Hér talar forsætisráðherra lýðræðisþjóðar! Sá ráðherra á að vera fremstur meðal jafningja og veita leiðsögn og forystu. Þegar forsætisráðherra kemur fram með slíkri heift og hatri í garð þriðjungs þjóðarinnar, þá verður erfitt að gera kröfur um málefnalega umræðu meðal landsmanna.

Ætli ráðherrann hafi nokkuð verið með þennan þriggja vikna skæting í huga þegar hann las orðin „traust manna í millum“ á Austurvelli þann 17. júní? Þau orð eru lítils virði í ljósi þess sem sagt var þann 29. maí.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur á síðari áratugum yfirleitt notið kjörfylgis á bilinu 33% til 38% kjósenda í alþingiskosningum. Hann mælist með slíkt fylgi í skoðanakönnunum um þessar mundir. Ætli fylgjendur þessa flokks, rúmur þriðjungur þjóðarinnar, sé sáttur við að forsætisráðherra leyfi sér að kalla hann „fjárglæframenn“? Er það með framkomu af þessu tagi sem forsætisráðherra ætlar að auka samstöðu og traust manna í millum?

KommúnistaávarpiðKolbrún Bergþórsdóttir lýsti athyglisverðri sýn á flokksþingsræðu forsætisráðherra í pistli þann 2. júní sl. Kolbrún er að mínu mati skemmtilegasti, beitt-asti og athyglisverðasti greinarhöfundurinn sem skrifar reglubundið í Morgunblaðið undir nafni um þessar mundir. Hún sagði þá m.a.:

„Eftir nýlegan flokksstjórnarfund Samfylkingarinnar er ljóst að báðir ríkisstjórnarflokkarnir fyrirlíta fjármagn, hafa takmarkaðan áhuga á atvinnuuppbyggingu og berjast fyrir því að koma á láglaunastefnu, svo að þegnarnir hafi það nú örugglega flestir jafnskítt.“

Þá sagði hún að ræða Jóhönnu væri sennilega sú furðulegasta sem hún hafi haldið á ferlinum en þar taldi hún upp þá hópa sem ríkisstjórnin hygðist beita sér sérstaklega gegn, en þeirra var getið hér að framan.

Þá sagði Kolbrún: „Þetta kommúnistaávarp forsætisráðherra var þvílíkur samsetningur að manni fallast hendur. Áleitnasta hugsun manns er: Getur enginn losað þjóðina við þessa skelfilegu ríkisstjórn?“

Samstaða þjóðarinnar og traust manna í millum næst einungis ef leiðsögninni verður lyft á hærra plan en nú er.




Skoðun

Sjá meira


×