Viðskipti innlent

Já segir upp starfsfólki

Símaskrá Já.
Símaskrá Já.
Stjórnendur Já, sem annast rekstur 118, vefsvæðisins já.is og sér um útgáfu Símaskrárinnar, hafa ákveðið að grípa til hagræðingaraðgerða. Aðgerðirnar, sem koma til framkvæmda í haust, felast í því að fækka starfsfólki um 6 – 8, en nú er starfsfólk Já um 120 talsins, auk þess sem þjónustuveri Já á Akureyri verður lokað.

Til mótvægis við lokunina verða þjónustuver fyrirtækisins í Reykjanesbæ og Reykjavík efld. Með þessu eykst nýting þjónustuveranna en störfum þjónustufulltrúa fækkar.

„Þetta eru sársaukafullar aðgerðir, bæði að þurfa að fækka í starfsliðinu og ekki síður að loka þjónustuverinu á Akureyri. Þar höfum við haft öfluga starfsstöð og gott fólk. En því miður er staðan sú að við neyðumst til að taka erfiðar ákvarðanir. Það er á ábyrgð okkar sem stýrum fyrirtækinu að tryggja hag allra starfsmanna og viðskiptavina Já til framtíðar með góðum rekstri og með þessum aðgerðum erum við að sinna þeirri skyldu okkar,“ segir Sigríður Margrét Oddsdóttir, forstjóri Já í tilkynningu sem fyrirtækið sendi frá sér.

Lokun þjónustuversins á Akureyri samhliða eflingu annarra þjónustuvera er sú hagræðingaraðgerð sem hefur minnsta fækkun stöðugilda í för með sér um leið og tryggt er að þjónustustig Já haldist óbreytt. Alls starfa nú nítján fastráðnir starfsmenn hjá þjónustuverinu á Akureyri í 18,5 stöðugildum. Hluta þess starfsfólks verður boðin vinna hjá þjónustuverum Já í Reykjavík og Reykjanesbæ.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×