Skoðun

Gerum okkur ekki kvíðann að hlíf

Guðrún Hannesdóttir skrifar
Að standa utan hernaðarbandalaga kann að virðast flókið og erfitt mál við fyrstu sýn. Þjóð sem velur þann kost neyðist til að horfast í augu við heiminn og taka mikilvægar bindandi ákvarðanir á eigin ábyrgð og á eigin forsendum.

Nýliðin öld er talin blóðugust allra frá upphafi og þarf ekki mikla söguþekkingu til að sjá hvernig hernaðarbandalög hafa leyst upp og skriðið saman á ný í nýrri mynd. Það voru m.a. „hámenntuðustu“ þjóðir heims sem sendu blómann úr heilum kynslóðum ungra manna út í opinn dauðann í tveimur heimsstyrjöldum. Og enn eru þau að. Því stríð leysa hvorki tímabundinn vanda né langtímavanda. Það hafa þau aldrei gert – þvert á móti – þau undirbúa jarðveginn fyrir áframhaldandi styrjaldir og geta aðeins hnikað til valdahlutföllum og auðæfum – enda leikurinn til þess gerður. Innan hernaðarbandalaga er hinum smærri og valdaminni þjóðum, að ekki sé minnst á þær óvopnuðu, skákað fram og til baka að vild, lönd þeirra og lofthelgi notuð sem þurfa þykir án þess að þær séu spurðar álits. Enginn spyr hvort það íþyngi samvisku okkar og sálarfriði að hryllileg voðaverk séu unnin í fjarlægum löndum í okkar nafni, og við yrðum heldur ekki spurð þó víglínan færðist okkur nær. Er þetta sú staða sem við kjósum? Höfum við val?

Fjölmargar þjóðir í Evrópu hafa lýst yfir varanlegu hlutleysi (t.d. Austurríki, Sviss, Svíþjóð, Finnland og Írland) og ýmsar fleiri (svo sem Costa Rica, Malta, Japan og Panama) hafa bundið ævarandi hlutleysi í stjórnarskrár sínar og lög. Hlutleysi landa er af ýmsum toga og liggja að baki margvíslegar og ólíkar sögulegar ástæður, þrýstingur risavaxinna grannríkja, milliríkjasamningar eftir stórátök o.fl. og víst er að túlkun á hugtakinu hefur verðið breytileg og teygjanleg á stundum. Ýmsar raddir eru t.d. uppi nú um óljósa og breytta stöðu sumra hlutlausra Evrópuríkja eftir inngöngu þeirra í ESB sem hefur eins og menn vita eigin stefnu í utanríkismálum. Hagsmunirnir eru margvíslegir sem marka slóð hvers ríkis, og hver þjóð verður ein og óhrædd að taka ákvarðanir um hlutverk sitt.

Blikur eru nú á lofti, ef til vill fleiri en nokkurn tíma áður. Ofan á ófrið og stríðsrekstur víða um heim bætist nú við áður óþekktur háski sem stafar af hirðuleysi mannanna í umgengni við náttúruna. Yfirvofandi vatns- og matarskortur með tilheyrandi fólksflutningum og óöryggi er í uppsiglingu. Og það í slíkum mæli að augu venjulegs fólks um allan heim eru farin að opnast fyrir þeirri fráleitu stöðu að ómældu fjármagninu sem dælt er í grimmileg yfirráð og hernaðarleiki þjóða er ekki aðeins kastað á glæ, heldur eykur það stórlega sundrungu og böl en bætir einskis manns vanda.

Friðsamleg afstaða og bræðralag þjóða eru mannanna verk engu síður en sóun og grimmd. Samstaða og samábyrgð í baráttu gegn fátækt, sjúkdómum og misrétti eru það líka. Og til eru mörg lýsandi dæmi um vopnlaust andóf, friðsamlega baráttu manna eins og Gandhis sem með hugrekki og einurð breytti gangi sögunnar til frambúðar með hugsjónir einar að vopni.

Sérhver ferð hefst á einu skrefi og hver þjóð með sjálfsvirðingu verður að taka það skref á eigin fótum með skýra og markvissa stefnu fyrir augum. Íslendingar geta lagt sinn skerf til bræðralags þjóðanna og bæst í vaxandi hóp þeirra sem velja veg friðar. Það geta þeir með því að lýsa því yfir að þeir fari ekki með ófriði á hendur öðrum þjóðum, lýsa land sitt herlaust og vopnlaust og með því að taka sér stöðu utan hernaðarbandalaga. Síðasta ákvæðið er mikilvægast, bæði sem fordæmi og vegna þess að án þess falla hin dauð og ómerk og við verðum áfram leiksoppar annarra þjóða.

Hvað varðar spurninguna um hvað til bragðs skuli taka sé á okkur ráðist, er endanlegt svar vandfundið. Meginstoð er í þeirri staðreynd að alþjóðalög viðurkenna og skilgreina rétt þjóða til hlutleysis. Ekki má ráðast inn í hlutlaust ríki og það á rétt á að grípa til varna án þess að fyrirgera hlutleysisrétti sínum segir m.a. í Haag-sáttmálanum. Það ríki sem bindur hlutleysi í stjórnarskrá hlýtur að gera það með vandlega yfirveguðum hætti í samræmi bæði við alþjóðalög, eigin forsendur og vilja þjóðarinnar.

Ekki er hægt að taka önnur svör gild en okkar eigin. Hvern ætti að spyrja ráða? Hernaðaröflin sem standa í „vörnum“ nótt sem nýtan dag og eiga alla sína hagsmuni undir því að viðhalda óbreyttu ástandi? Ættum við að leita svara hjá þjóðunum sem sjá „varnirnar“ með eigin augum í limlestum líkum sinna nánustu, hrundum borgum og sviðinni jörð?

Engin leið er fær önnur en leið ábyrgðar, sátta og samvinnu ef menn ætla ekki að fyrirgera mennsku sinni eins og skáldið Harold Pinter sagði í frægri Nóbelsverðlaunaræðu sinni árið 2005.




Skoðun

Sjá meira


×