Skoðun

Hvatt til ofníðslu á gróðurleifum landsins

Herdís Þorvaldsdóttir skrifar
Þrátt fyrir gríðarlega offramleiðslu á kindakjöti í áratugi með óhemju kostnaði fyrir ríkissjóð (okkur skattgreiðendur), að ekki sé talað um skaðsemi þessarar ofbeitar á landinu, voga menn sér að hvetja til meiri framleiðslu sauðfjárafurða. Aðalástæðan er sú að í fyrsta sinn þarf ekki að borga með útflutningi á kjötinu, sem annars væri urðað, vegna gengisfalls krónunnar. Eitthvað af gjaldeyri kemur inn, en er ekki kostnaðurinn af þessari framleiðslu meiri en fæst fyrir hana. Ekki hefur verið hægt að fá áætlaðar tölur um kostnað við framleiðslu á útflutningskjötinu í t.d. kílóavís, en skemmdirnar á landinu kosta sitt og hver borgar þær?

Eitthvað af gróðri þarf í hverja skepnu sem fer lítið lamb á afrétt og kemur næstum fullvaxin kind að hausti, og þessi 1000 tonn af offramleiðslukjöti eru af milli 400.000 og 500.000 skepnum sem nöguðu landið allt sumarið til að lenda í maga útlendinga á kostnað skemmda landsins okkar. Og hverjir græða? Bændur, fyrir að framleiða eitthvað sem ríkið er þegar eru búið að greiða þeim fyrir? Einu sem græða að ráði eru milliliðirnir. Ómetanlegt tapið af þessari rányrkju er okkar allra hinna sem ekki erum með sauðfé í formi hærri skatta og landauðnar.

Síðasti sauðfjársamningur til sex ára heimilaði 16.000.000.000 úr ríkissjóði auk einhverja milljóna í aðra styrki t.d. til nýliðunar í greininni. Á beit í sumar voru 1.300.000 fjár og kjötbirgðirnar í haust voru 3.000 tonn, af þeim um 1.000 offramleiðsla, hugsanlega jafnvel meiri því innanlandsneyslan hefur verið í lágmarki undanfarin ár.

Af hverju viðgengst þvílík skemmdarstarfsemi á landinu, af litlum hagsmunahóp? Mætti segja að þetta sé tímaskekkja? Er ekki kominn tími til að taka í taumana og breyta þessum búskaparháttum, landinu í vil. Unga fólk, þið sem fáið skaðann af þessari landníðslu í arf, er ykkur sama!? Hugsið málið og lítið í kringum ykkur á leiðinni í næstu útilegu.




Skoðun

Sjá meira


×