Skoðun

Börn hefja ekki stríðsátök

Stefán Ingi Stefánsson skrifar
Það eru ekki börn sem hefja stríðsátök. Það eru heldur ekki börn sem varpa flugskeytum, stjórna starfi uppreisnarmanna eða stunda kúgun þegna sinna. Hins vegar eru börn ævinlega þau sem eru mest berskjölduð á átakasvæðum.

Börnin eru þau fyrstu til að finna fyrir afleiðingum þess þegar daglegt líf fer úr skorðum og innviðir samfélagsins bresta. Börn eru viðkvæmari en fullorðnir ef þau veikjast. Útbreiðsla farsótta kemur iðulega verst niður á þeim yngstu. Börn eru þau fyrstu til að falla þegar næring er af skornum skammti. Þegar upplausn ríkir eru börn auk þess enn útsettari en ella fyrir misnotkun og ofbeldi – sérstaklega ungar stúlkur.

Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, UNICEF, hefur þungar áhyggjur af lífi og velferð barna í Líbíu nú þegar röskun hefur orðið á öllu daglegu lífi þar í landi. Yfir 300.000 manns hafa flúið yfir landamærin og í hópnum er fjöldi barna. Þeim þarf að hlúa að. Heima við í Líbíu bíða hundruð þúsunda barna þess sem verða vill – hvort sem er í borgum sem andstæðingar líbískra ráðamanna ráða nú yfir, bæjum þar sem nánast allar verslanir eru lokaðar og erfitt er að nálgast vistir, eða stöðum sem gætu verið í grennd við skilgreind skotmörk og orðið fyrir árásum.

UNICEF vinnur að því að aðstoða þessi börn. Mikilvægt er að vera til staðar bæði nú og á komandi mánuðum. Alls óvíst er hvað loftárásir munu standa lengi og hvað tekur við í framhaldinu. Verkefnin eru ærin: Barnavernd, menntun barna, sálræn aðstoð eftir það sem á undan er gengið, bólusetningar, aðgangur að heilsugæslu og hreinu vatni – listinn er langur. Á þessari stundu vinnur UNICEF m.a. að því að koma upp barnvænum svæðum í flóttamannabúðum við landamæri Líbíu. Þar geta börn leikið sér og reynt að halda í venjulegt líf í óvenjulegum aðstæðum.

Til að geta unnið starf sitt í Líbíu þarf UNICEF á aðstoð að halda. Íslendingar geta lagt sitt af mörkum. UNICEF á Íslandi hefur hafið neyðarsöfnun sem fræðast má um á www.unicef.is. Stöndum þétt að baki börnum í Líbíu.

 






Skoðun

Sjá meira


×