Handbolti

Ágúst: Við eigum möguleika

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Ágúst Þór Jóhannesson landsliðsþjálfari (í miðjunni) og Gústaf Adolf Björnsson, aðstoðarmaður hans, til vinstri.
Ágúst Þór Jóhannesson landsliðsþjálfari (í miðjunni) og Gústaf Adolf Björnsson, aðstoðarmaður hans, til vinstri. Mynd/Valli
Íslenska landsliðið hefur á fimmtudaginn leik í undankeppni EM 2012 en þá mæta stelpurnar sterku liði Spánar ytra. Ísland leikur svo gegn Úkraínu á sunnudaginn en þar að auki er Sviss í sama riðli. Tvö lið komast áfram í úrslitakeppnina sem fer fram í Hollandi í desember á næsta ári.

Spánn er fyrirfram talið sterkasta liðið í riðlinum. Ágúst Þór Jóhannesson landsliðsþjálfari er þó hvergi banginn. „Spánn er með mjög sterkt lið en getur þó líka dottið ansi langt niður ef leikmenn hitta ekki á sinn dag. Ef við náum okkar besta fram eigum við góðan möguleika," sagði Ágúst. „Ég hef lagt mikla áherslu á sóknarleikinn og að fækka mistökum í honum. Góð lið eru mjög fljót að refsa fyrir slík mistök."

Sextán leikmenn fóru utan í morgun en tveir leikmenn urðu eftir vegna meiðsla – skyttan Rut Jónsdóttir og Guðrún Ósk Maríasdóttir markvörður.

Ísland spilar svo á HM í Brasilíu í desember næstkomandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×