Viðskipti innlent

Óttast að gosið í fyrra fæli frá í ár

Svæðisstjóri Norður-Evrópumarkaðar hjá þýsku ferðaskrifstofunni Wolters óttast að síðbúin áhrif ógnvænlegra mynda frá gosinu í Eyjafjallajökli fæli hluta ferðamanna frá því að koma hingað. Fréttablaðið/GVA
Svæðisstjóri Norður-Evrópumarkaðar hjá þýsku ferðaskrifstofunni Wolters óttast að síðbúin áhrif ógnvænlegra mynda frá gosinu í Eyjafjallajökli fæli hluta ferðamanna frá því að koma hingað. Fréttablaðið/GVA
Blikur eru á lofti hvað varðar ferðamannastraum til Íslands frá Evrópu og þá sér í lagi Þýskalandi, verði ekki brugðist sérstaklega við. Þetta segir Ole Nysetvold, svæðisstjóri Norður-Evrópumarkaðar hjá þýsku ferðaskrifstofunni Wolters Reisen.

Ole Nysetvold segir vel hafa tekist til í kynningu í umróti síðustu ára, bæði bankahruni og í fyrstu viðbrögðum við gosinu í Eyjafjallajökli. „Ég hef hins vegar áhyggjur af nýhöfnu ári,“ segir hann. „Við horfum nú fram á síðbúin áhrif af neikvæðri umræðu um öskufall og slíkt.“ Bankahrunið hafi verið auðveldara viðfangs og jafnvel hjálpað ferðaiðnaðinum, því þeim fréttum hafi jafnan fylgt fallegar myndir af náttúru Íslands. „Núna sitja hins vegar eftir í hugum sumra ímyndir jarðvár og öskufallsgráma.“

Hafi ferðamenn ekki alveg sérstakan áhuga á Íslandi segir Nysetvold viðbúið að erfiðara verði að telja þá á að koma hingað. „Áhrifin eru mismunandi eftir aldri og samsetningu hópa ferðafólks. Eldra fólk, sem gjarnan ferðast með skemmtiferðaskipum, er líklegast til að halda sig fjarri.“

Birkir Hólm Guðnason, framkvæmdastjóri Icelandair, segir félagið stöðugt hvetja stjórnvöld til dáða á sviði kynningarmála. „Það er hörð samkeppni í ferðaheiminum og það kostar fjármuni og fyrirhöfn að fá ferðamenn til Íslands,“ segir hann. Þótt Inspired by Iceland-átakið hafi tekist vel þurfi meira að koma til. „Icelandair setur mikla fjármuni í auglýsingar og kynningarstörf erlendis, en aðrir verða að koma að því líka,“ segir hann.

Inga Hlín Pálsdóttir, forstöðumaður erlendrar markaðssóknar hjá Íslandsstofu, undrast áhyggjur Nysetvolds, og segir frekar að vart sé við aukinn áhuga á Íslandi. „Það er allt samkvæmt áætlun í sölu erlendis,“ segir hún og bendir á að nú sé nánast sama bókunarstaða á ferðum hingað og var í fyrra, þegar stefndi í metár.

Þá telur Inga Hlín ekki ástæðu til að hafa verulegar áhyggjur af Þýskalandsmarkaði, sem standi ágætlega efnahagslega. Líklegra sé að kuldatíð sem þar hafi staðið letji fólk til að panta sér ferð til Íslands. Landið verður hins vegar að sögn Ingu ofarlega á baugi í margvíslegum kynningum og umfjöllun ytra næstu vikur, svo sem vegna bókamessunnar í Frankfurt, þar sem Ísland verður heiðursgestur.

olikr@frettabladid.is
Ole Nysetvold





Fleiri fréttir

Sjá meira


×