Skoðun

Hvað er málið með landsbyggðina?

Kristinn Hermannsson skrifar
Sif Sigmarsdóttir tekur að sér vanþakklátt hlutverk sendiboðans í bakþönkum sínum í Fréttablaðinu (22.6.) þar sem hún spyr hvað sé málið með landsbyggðina, af hverju þurfi að finna byggðavinkla á sjávarútvegi og menntamálum og hvort sé best að stjórna þessum málaflokkum án tillits til byggðasjónarmiða? Hún getur þess réttilega að málin séu oft rædd manna á milli, en fólk sé feimið við að ræða þau hispurslaust fyrir opnum tjöldum. Það er miður, því eins og margt annað á Íslandi örra breytinga þarf einmitt að ræða ítarlega gengi ólíkra landshluta og hvort tilefni sé til inngripa. Samkvæmt minni reynslu er oftar en ekki gengið út frá veigamikilli en rangri forsendu í þessari umræðu, það er að landsbyggðin sé efnahagslegur baggi á höfuðborgarsvæðinu.

Varla er nema von að því sé haldið fram því iðulega kynna stjórnmálamenn ítarlega fjárveitingar sem er fyrirhugað að verja úti á landi (þeir hafa jú hagsmuni af að telja kjósendum trú um að þeir starfi í þeirra þágu). Jafnan verður þó minna úr slíkum fyrirheitum í reynd og þar að auki er ekki hægt að álykta um heildarskiptingu opinberra útgjalda milli landshluta út frá einstaka dæmum. Staðreyndin er hins vegar sú að landsbyggðin skilar meiri skatttekjum inn í pottinn en hún tekur út, t.d. í formi jarðganga og frumkvöðlastyrkja. Vífill Karlsson hagfræðingur sýndi fram á þetta með því að rannsaka gögn frá skattayfirvöldum. Þóroddur Bjarnason prófessor á Akureyri hefur nálgast þetta viðfangsefni frá öðrum enda og spurt hvernig opinberri þjónustu væri háttað ef henni væri dreift á landshluta í hlutfalli við höfðatölu. Ef farið er eftir þeim mælikvarða vantar verulega upp á umfang opinberrar starfsemi á landsbyggðinni.

Samkvæmt þessu má svo gagnálykta að stærsta byggðaaðgerðin á Íslandi er sú viðvarandi tilfærsla fjármagns sem á sér stað til höfuðborgarsvæðisins í gegnum skatta og útgjöld ríkisins. Auðvitað má færa viss gild rök fyrir því, það er bara ein þungamiðja búsetu á landinu og þess vegna er skynsamlegt að veita ýmsa þjónustu miðlægt þaðan. En þar með er ekki sagt að það sé skynsamlegt að reka alla opinbera starfsemi miðlægt. E.t.v. þyrfti ekki að ræða þetta ef ríflegur hagvöxtur væri viðvarandi á landsbyggðinni en endurskipulagning í undirstöðuatvinnugreinum, s.s. sjávarútvegi, landbúnaði og smáiðnaði, hefur veikt afkomu þeirra svæða um árabil.

Þannig er mjög villandi að merkja einstaka stjórnvaldsákvarðanir sem byggðamál, því í reynd hafa allar ákvarðanir afleiðingar í rýminu. Ástæða þess að það þarf að færa peninga með handafli frá Alþingi út á land er sú að þeir renna sjálfkrafa suður. Líklega væri farsælasta lausnin að skilja bara örlítið meiri pening eftir úti á landi og veita fólki þar sjálfræði til að ráðstafa því fé eins og það best telur. Þá gætum við vonandi losað okkur við byggðavandamálið og kjördæmapotið. Þeir sem eru gerendur og geta haft áhrif á sína framtíð eru bæði hamingjusamari og árangursríkari en þeir sem hafa ekki vald yfir aðstæðum sínum og þurfa sífellt að vera í vörn. Þar með er ekki sagt að allar byggðir verði eilífar eða eigi að vera það, en það á að gefa fólki sanngjarnt tækifæri.

Höfuðborgin græðir ekkert á því ef illa gengur úti á landi. Um allt land eru ónýtt tækifæri til útflutnings sem krefjast hugvits og tækniþekkingar til að þróa megi hagkvæma og sjálfbæra nýtingu. Hér fara hagsmunir höfuðborgar og landsbyggðar saman því auknar gjaldeyristekjur þarf til að greiða fyrir innflutning, sem er forsenda nútímasamfélags á Íslandi. Áþreifanlegt dæmi um þetta er fiskeldi, sem er vaxandi atvinnugrein víða um land en krefst stöðugrar þróunar og árvekni. Öll sú velta fer að lokum um höfuðborgarsvæðið hvort sem er þegar vörunni er flogið á markað, gjaldeyririnn skilar sér í gegnum bankakerfið, starfsmenn neyta innfluttra vara eða vegna áðurnefnds flæðis í gegnum skattkerfið. Þó að hér sé til skýringar minnst á dæmigerðan vöruútflutning mætti allt eins nefna skapandi greinar, viðburði, ráðstefnugesti eða erlenda nemendur, svo fáein dæmi séu tekin af handahófi.

Að lokum, tvær örstuttar málsgreinar um tvö aðskilin efni sem hægt væri að halda mjög, mjög langt mál um.

Varðandi sjávarútveginn sérstaklega er til lítils gagns að smætta þá umræðu niður í tvo kosti: Annað hvort skilvirkt kerfi eða byggðavænt. Umræða í slíkum skotgröfum getur aldrei orðið lausnamiðuð og skapandi. Axel Hall og félagar skrifuðu ítarlega skýrslu um þessi mál, sérstaklega miðað við þann skamma tíma sem þeim var skammtaður. Eins og við er að búast í jafn flóknu máli eru þó enn margar forsendur, túlkanir og blæbrigði sem orka tvímælis og fræðimenn fá vonandi tækifæri til að rýna í betur.

Varðandi háskólamálin er það alþekkt úr alþjóðlegum rannsóknum að menntastarfsemi hefur margvísleg jákvæð staðbundin áhrif, bæði félagsleg og hagræn. Þannig er það viðtekið í nágrannalöndum okkar, jafnt austan hafs sem vestan, að til viðbótar við stórar rannsóknarmiðstöðvar starfa minni einingar sem hafa þann tilgang að dreifa ávinningnum af menntun og rannsóknum. Sem dæmi um árangur Íslendinga af slíku starfi má nefna að fyrir fáeinum áratugum var útbreidd skoðun á Vestfjörðum að menntun væri sóun og hefði þann eiginleika helstan að gera aumingja úr annars góðu vinnuafli. Sem betur fer hefur aðgengi að menntun stórbatnað um land allt, sem m.a. hefur leitt til mikillar menntasóknar á Vestfjörðum á undraskömmum tíma. Á því græða allir. Látum liggja milli hluta hvort það telst nútímaleg stjórnsýsla að Alþingi ákveði að í fyrsta sinn skuli starfa prófessor á Vestfjörðum. Persónulega fyndist mér farsælla ef lýðræðislega kjörið stjórnvald í héraði gæti ákveðið forgangsröðun a.m.k. hluta skattfjár á hverjum stað. Hitt er víst að ávinningur fjórðungsins af aukinni samveru við akademískar rannsóknir mun smita út frá sér til höfuðborgarsvæðisins því margfeldisáhrif frá jaðrinum skila sér alltaf til miðjunnar.

Höfundur er hagfræðingur.




Skoðun

Sjá meira


×