Viðskipti innlent

Fasteignaverð hefur hækkað um 8%

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Fasteignaverð hækkaði um 8% frá janúar og þar til í október á þessu ári, segir Hagfræðideild Landsbankans í Vegvísi, riti sínu. Íbúðaverð stóð hins vegar næstum í stað allt árið í fyrra, nánar tiltekið lækkaði það um 0,5%. Raunlækkun fasteignaverðs, það er að segja verð að teknu tilliti til verðbólgu, nam um 1,9% á síðasta ári en raunverð fasteigna hækkaði um 2,5% á fyrstu níu mánuðum ársins.

Velta og fjöldi kaupsamninga á árinu 2011 segja svipaða sögu. Á fyrstu 11 mánuðum ársins jókst veltan á höfuðborgarsvæðinu, Akureyri, Árborg og Suðurnesjum í heild sinni um 54% miðað við sama tímabil árið 2010. Á þessum svæðum hefur fjöldi kaupsamninga einnig aukist um 53% milli ára. Innan þessa hóps er þróunin þó mjög mismunandi.

Á höfuðborgarsvæðinu hefur veltan aukist á fyrrnefndu tímabili um 65% og fjöldi kaupsamninga um 59%. Á Suðurnesjum hefur veltan aftur á móti dregist saman um 39% á milli fyrstu 11 mánaða áranna 2010 og 2011 og fjöldi kaupsamninga hefur lækkað um 3%.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×