Erlent

Óskarinn fyrir Citizen Kane fór á hundrað milljónir

Óskarsverðlaunastyttan sem Orson Welles fékk fyrir að skrifa handritið að kvikmyndinni Citizen Kane árið 1941 seldist á uppboði í Kalíforníu í gær á 850 þúsund dollara eða rúmar hundrað milljónir króna.

Auk þess að skrifa handritið, leikstýrði Welles myndinni og lék einnig aðalhlutverkið. Citizen Kane er líklegast sú mynd sem oftast er nefnd besta kvikmynd allra tíma. Á sínum tíma var hún tilnefnd til níu óskarsverðlauna en hlaut á endanum aðeins þessi einu. Styttan var týnd í mörg ár en kom upp á yfirborðið árið 1994. Óskarsstyttur fara afar sjaldan á uppboð, enda hafa allir verðlaunahafar frá árinu 1950 þurft að skrifa undir eið þess efnis að þeir muni aldrei selja styttuna frá sér.

Á þessu eru þó undantekningar og frægt varð þegar Michael Jackson heitinn borgaði eina og hálfa milljón dollara fyrir styttu árið 1999.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×