Erlent

Náttúruundur fylgdu fráfalli Kim Jong-il

Kim Jong-il á viðhafnarbörum í Pyongyang.
Kim Jong-il á viðhafnarbörum í Pyongyang. mynd/AFP
Enn syrgja íbúar Norður-Kóreu en nú eru þrír dagar liðnir síðan tilkynnt var um fráfall Kim Jong-il, einræðisherra og andlegs leiðtoga kjarnorkuveldisins. Stjórnvöld í Norður-Kóreu hafa nú birt ótrúlegar lýsingar á náttúrufyrirbærum sem áttu sér stað þegar leiðtoginn féll frá.

Í tilkynningu stjórnvalda kemur fram að tindur eins dáðasta fjalls landsins hafi ljómað og að hlýr bjarminn hafi rofið íshellu á nálægu stöðuvatni.

Því næst reis tignarlegur hegri á loft af ísnum og hringsólaði um styttu af Kim il-Sung, stofnanda Norður-Kóreu. Hegrinn tyllti sér síðan á trjágrein og laut höfði í sorg.

Þessi undarlegu náttúrufyrirbæri kallast á við lýsingar af fæðingu leiðtogans. Í ævisögu Kim Jong-il kemur fram að svala hafi spáð fyrir um fæðingu hans. Tvöfaldur regnbogi hafi síðan birst yfir fæðingarstað hans og ný stjarna birtist á himni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×