Erlent

Finnar rugluðust á eldflaugum og flugeldum

Patriot flaugarnar voru á leið til Suður Kóreu.
Patriot flaugarnar voru á leið til Suður Kóreu.
Leyndardómurinn um hergögnin í dularfullu flutningaskipi í finnskri höfn hefur verið leystur. Um þýðingarvilu var að ræða. Patriot loftvarnaflaugarnar og sprengiefnið sem finnsk hafnaryfirvöld fundu um borð í flutningaskipinu MS Thor Liberty sem var á leið til Suður-Kóreu og Kína var löglegur farmur eftir allt saman. Farmurinn kom yfirvöldum í finnsku hafnarborginni Kotka á óvart enda var illa um hann búið til slíkrar sjóferðar.

Sprengiefnið, sem var um 160 tonn var til að mynda á opnum pallettum en ekki í gámum. Þá sögðu Finnarnir að flaugarnar, sem eru háþróuð hergögn, hafi verið merktar í farmskrá sem flugeldar. Það hefur sennilega kveikt viðvörunarljós því erfitt er að sjá fyrir sér mikinn gróða í því að flytja flugelda til Kína. Málið vakti mikla athygli í gær og voru áhafnarmeðlimir skipsins, sem eru flestir frá Úkraínu, hnepptir í varðhald.

Nú hafa Þjóðverjar hinsvegar upplýst að flaugarnar séu komnar frá þeim og að þær hafi verið á leið til Suður Kóreu í samræmi við löngu gerðan samning.

Skýring mun einnig vera komin á sprengiefninu, en það er á leið til Kína þar sem það verður notað við framkvæmdir. Hvað varða ruglinginn með flugeldana sem áttu að vera í kössunum virðist vera sem um þýðingarvillu hjá finnsku tollvörðunum sé að ræða. Á kössunum stóð enska orðið Rockets, eða eldflaugar, en Finnarnir þýddu það sem rakettur, líklega í ljósi þess að áramótin nálgast.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×